Vegna forfalla eru örfá sæti laus í sumarferð stéttarfélaganna í Flateyjardal á laugardaginn, 17. ágúst.
Fyrir nokkrum árum gerðu stéttarfélögin góða ferð í Fjörður, en að þessu sinni verður Flateyjardalurinn heimsóttur. Um er að ræða dagsferð. Lagt verður af stað frá Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26 klukkan 8:30. Heimkoma er áætluð um kvöldmatarleitið. Fararstjórn er í höndum Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar en hún þekkir hverja þúfu á þessum slóðum. Henni til aðstoðar verður Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar.
Stéttarfélögin hafa staðið fyrir skemmtiferðum fyrir félagsmenn sína undanfarin ár og hafa þær verið vinsælar og vel sóttar. Skaginn milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur að geyma einstaka náttúruparadís. Til svæðisins teljast eyðibyggðirnar á Látraströnd, í Fjörðum, á Flateyjardal, Flateyjardalsheiði, nyrst í Fnjóskadal og í Náttfaravíkum að ógleymdri Flatey sem lúrir makindalega úti á Skjálfandanum. Eftir þúsund ára erfiðan búskap lagðist byggð af á þessum útkjálka, en eftir stendur mikilfengleg náttúra sem er í senn angurblíð og fögur, en jafnframt ógnvekjandi og hrikaleg. Skaginn geymir sögu genginna kynslóða og þar á hvert tóftarbrot sína sögu, þar bjó kraftmikið fólk sem háði harða og óvægna baráttu við náttúruöflin.
Reiknað er með að menn nesti sig sjálfir í ferðina en boðið verður upp á grillmat og drykki í boði stéttarfélaganna síðdegis á laugardaginn. Linda Baldurs á skrifstofu stéttarfélaganna tekur við skráningum í ferðina. Þátttökugjaldið er kr. 5.000 fyrir félagsmenn og gesti.
Ósk Helgadóttir er frábær fararstjóri og hún verður án efa í miklu stuði á laugardaginn.
…..Jónas Kristjánsson verður svo á katinum Ósk til aðstoðar.