Að gefnu tilefni viljum við minna á eftirfarandi samkomulag um hækkanir til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga:
17. apr 2019 launaþróunartrygging, launaskrið
Laun starfsmanna sveitarfélaga sem eru í einhverjum af aðildarfélögum BSRB s.s. innan Starfsmannafélags Húsavíkur munu hækka um 1,5 prósent frá 1. janúar 2019 eftir að samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna var undirritað í gær.
Laun starfsmanna ríkisins sem eru í einum af aðildarfélögum BSRB munu ekki hækka að þessu sinni þar sem laun þeirra hækkuðu meira en sem nemur hækkunum á almenna vinnumarkaðinum á síðasta ári. Laun félaga í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum s.s. félagsmanna Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar munu hækka um 1,7 prósent og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um 0,4 prósent frá 1. janúar.
Mögulega mun hækkunin koma til framkvæmda frá næstu mánaðarmótum hjá einhverjum vinnustöðum en hjá öðrum um mánaðarmótin maí-júní. Hækkunin er afturvirk frá 1. janúar.
Launaþróunartryggingin varð til með undirritun rammasamkomulags milli ríkisins, sveitarfélaga, BSRB, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins í október 2015. Þetta er þriðja og síðasta mælingin þar sem borið er saman launaskrið á almenna markaðinum og hinum opinbera. Opinberum starfsmönnum er í kjölfarið bætt upp það launaskrið sem orðið hefur á almenna markaðinum umfram það sem orðið hefur á þeim opinbera.
Tilgangurinn með launaþróunartryggingunni er meðal annars sá að tryggja að laun á opinbera vinnumarkaðinum sitji ekki eftir og að þar með myndist uppsöfnuð þörf á hækkun þegar kemur að kjarasamningum. Hækkanirnar sem fást vegna hennar koma til viðbótar við kjarasamningsbundnar hækkanir.
Þetta var þriðja og síðasta mælingin á launaskriði vegna samninga aðildarfélaga BSRB sem runnu út í lok mars. Ein af kröfum BSRB í kjarasamningsviðræðum sem nú eru í gangi er að nýtt samkomulag um launaskriðstryggingu verði undirritað til að tryggja félagsmönnum aðildarfélaga bandalagsins sama launaskrið og mælist á almenna vinnumarkaðinum.