„ Jöfnum kjörin í okkar gjöfula landi og búum þannig til gott samfélag fyrir okkur öll, ekki bara fyrir fáa útvalda.“

Nú eru hafin hátíðarhöld í Íþróttahöllinni á Húsavík í tilefni af baráttudegi verkafólks 1. maí. mikið fjölmenni er saman komið en það eru stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem standa fyrir hátíðarhöldunum. Hér má lesa ávarp formanns Framsýnar sem hann er að flytja þegar þetta er skrifað:

Ágæta samkoma

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Kjörorð dagsins „Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla“ er nokkuð sem öllum ætti að þykja sjálfsagt mál, enda hefur það löngu sýnt sig að þeim samfélögum farnast best þar sem jöfnuður er mestur. Þar sem enginn er skilinn eftir.

Vaxandi ójöfnuður hefur læst sig í íslenskt samfélag líkt og illgresi í akur. Afleiðingarnar liggja fyrir; aukin misskipting, samþjöppun valds og auður hinna ríkustu vex og dafnar meðan lífskjör almennings standa í stað eða versna ekki síst barnafjölskyldna og þeirra sem minna mega sín.

Þetta er ekki ásættanleg staða í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem allir eiga að geta lifað með reisn og hér á enginn að þurfa að hokra í fátækt.

Hvernig má það líka vera í samfélagi sem kennir sig við velferð að skattbyrði þeirra tekjulægstu hafi verið þyngd á sama tíma og skattar þeirra tekjuhærri hafa verið lækkaðir. Það er öfugmælavísa úr leikhúsi fáránleikans.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum hafa miðast að því að laga þetta óréttlæti. Það er nefnilega nóg til fyrir alla sé rétt skipt og ríkjandi ójöfnuður er ekkert annað en mannanna verk.

Mín skilaboð út í samfélagið eru skýr: „ Jöfnum kjörin í okkar gjöfula landi og búum þannig til gott samfélag fyrir okkur öll, ekki bara fyrir fáa útvalda.“

Því miður eru ekki allir sammála þessari skoðun samanber umræðuna sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarna mánuði og varðar kröfugerð verkafólks gagnvart stjórnvöldum og Samtökum atvinnulífsins.

Ég var t.d. verulega hugsi þegar ég var spurður af félagsmanni í aðdraganda kjaraviðræðnanna við Samtök atvinnulífsins: „ Hverjir semja svona Kúti, mér og mínum er ætlað að framfleyta okkur á mánaðarlaunum innan við 300 þúsund krónur á mánuði, það er ekki hægt?“ Ég skal fúslega viðurkenna að ég átti mjög erfitt með að svara þessari spurningu, sitjandi við samningaborðið.

Spurningin var fullkomlega eðlileg enda þessi ágæti félagsmaður rasandi yfir sínum bágu kjörum. Yfir launum sem eru ekki einungis lág, heldur skammarlega lág og langt undir öllum eðlilegum framfærsluviðmiðum.

Skoðun þessa manns og annara félagsmanna um lífvænleg kjör var höfð að leiðarljósi þegar gengið var frá kröfugerð Framsýnar á hendur Samtökum atvinnulífsins haustið 2018 sem ég hef reynt eftir bestu getu að fylgja eftir.

Flestir vita fyrir hvað Framsýn stendur í kjarabaráttunni, auk félaga okkar í Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, VR og Eflingu. Við höfum kallað eftir róttækari verkalýðsbaráttu og fórum fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru við Samtök atvinnulífsins og undirritaðir í byrjun apríl.

Loksins, loksins er komið afl sem viðsemjendur okkar óttast, fjármagnseigendur sem og ákveðnir eigendur prentmiðla í landinu.

Félagar!

Ég vona að þið lítið ekki á mig sem hryðjuverkamann. Fyrir mér eru hryðjuverkamenn ekki síst þeir sem fremja stríðsglæpi eða fremja sjálfsmorðsárásir. Af hverju segi ég þetta?

Við sem höfum farið fyrir þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði og tekið hafa virkilega á, höfum verið teknir fyrir af ákveðnum fjölmiðlum, sem eru í eigu þeirra sem baða sig daglega upp úr peningum líkt og sögupersónan Jóakim aðalönd í Andrésar andarblöðunum.

Verkalýðsforingjar hafa verið teknir sérstaklega fyrir í leiðurum þessara blaða og jafnvel líkt við hryðjuverkamenn, fyrir það eitt að fylgja eftir kröfum fjöldahreyfingar sem telur yfir 100 þúsund félagsmenn og falla undir aðildarfélög Alþýðusambands Íslands. Það er um þriðjungur þjóðarinnar.

Elítan óttast að róttækt og baráttuglatt hugsjónafólk innan verkalýðshreyfingarinnar muni ógna veldi þeirra sem hafa í krafti auðæfa sinna lengstum farið með valdið í íslensku samfélagi. Óttast aflið sem gerði hallarbyltingu á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands, aflið sem yfirtók síðustu kjarasamninga og leiddi þá farsællega í höfn. Óttast að það verði minna til skiptanna fyrir eigendur fjármagnsins, gegn þeirri þróun þurfi að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Minnugur félagsmannsins sem spurði: „Hverjir semja svona?“ fannst mér merkilegt að lesa skrif Fréttablaðsins meðan á kjaraviðræðunum stóð. Í forystugreinum blaðsins var haldið uppi stöðugum áróðri gegn hækkun lægstu launa og sagt að svigrúm til að hækka lægstu launin væri minna en ekki neitt. Kröfum verkafólks var lýst sem sturluðum og þær væru ekki í neinum tengslum við efnahagslegan veruleika. Það væri ekki eftirspurn eftir hugmyndum þeirra verkalýðsforingja sem töluðu með öðrum hætti. En verkalýðsforingjar sem það gerðu væru stærsta einstaka ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks, því þeir mislæsu stöðuna til launahækkana hrapalega.

Reyndar skaut ritstjórn Morgunblaðsins einnig föstum skotum að verkalýðshreyfingunni. Sá sem þar stendur keikur í brúnni þarf sem betur fer ekki að lifa af þeim lífeyri sem megin þorri íslensks eftirlaunafólks þarf hins vegar að gera. Lífeyri sem í allt of mörgum tilfellum er langt undir fátækramörkum og skertur við hvert einasta tækifæri. Hvar er siðferðið hjá mönnum sem skrifa með þessum hætti en þiggja sjálfir margfaldan lífeyri annarra í sömu stöðu sem lífeyrisþegar? Er von að spurt sé?

Áróðursmaskínan gegn hækkun lægstu launa fór mikinn meðan á samningaviðræðunum stóð og fjölmiðlaumræða „Elítu blaðanna“ einkenndist að hræðsluáróðri, sem virtist beinast sérstaklega að fréttum af uppsögnum, samdrætti og gjaldþrotum fyrirtækja. Einhverra hluta vegna hafa þessar fréttir nánast horfið eftir að skrifað var undir kjarasamningana.

Félagar!

Ég hef ekki fjallað sérstaklega um niðurstöðu nýgerðra kjarasamninga en atkvæðagreiðslu um þá er nú lokið. Fyrir liggur að þeir voru samþykktir alls staðar meðal félagsmanna LÍV og Starfsgreinasambands Íslands, sem Framsýn á aðild að. Á flestum stöðum voru þeir samþykktir með miklum meirihluta atkvæða. Innan Framsýnar voru þeir samþykktir með allt að 90% greiddra atkvæða. Sé tekið mið af niðurstöðunni, þá eru félagsmenn mjög ánægðir með samninginn, en kosningaþátttakan hefði þurft að vera miklu betri meðal félagsmanna.

Sjálfur hef ég lengi komið að gerð kjarasamninga. Ég tel þá vera með þeim áhugaverðari sem gerðir hafa verið fyrir verkafólk frá þjóðarsáttarsamningum 1990. Þá er ég að tala um innihald samningsins sem byggir á kröfu okkar um krónutöluhækkanir og útspil ríkisstjórnarinnar sem miklar vonir eru bundnar við. Það er okkar í verkalýðshreyfingunni að fylgja því eftir að ríkisstjórnin standi við boðaðar aðgerðir. Þær varða sérstaklega skattalækkanir, vaxtalækkanir, ákveðna frystingu á hækkunum á þjónustugjöldum ríkis- og sveitarfélaga, hækkun barnabóta og lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er snúa að íbúðarkaupum fólks, ekki síst ungs fólks.

Þrátt fyrir að niðurstaðan liggi fyrir er þegar hafinn undirbúningur að gerð næstu kjarasamninga eftir tæp fjögur ár. Verkafólk má aldrei sofna á verðinum, baráttan fyrir sanngjarnara þjóðfélagi lýkur aldrei.

Það sama á við um baráttu aldraðra og öryrkja. Við erum öll í sama liði og saman eigum við að berjast fyrir auknum jöfnuði í þjóðfélaginu.

Það fer því vel á því að aðalræðumaður dagsins sé fulltrúi fólks á eftirlaunum, Ásdís Skúladóttir leikstjóri. Hún hefur látið sig þessi mál varða auk þess að hafa komið að starfi Grá hersins sem er hreyfing fólks sem kallar eftir breytingum á kjörum eldri borgara. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna hingað í dag ásamt fylgdarliði.

Með þessari ákvörðun vilja stéttarfélögin styðja við baráttu þeirra fjölmörgu eldri borgara sem hafa lagt stéttarfélögum lið í gegnum tíðina og eru nú komnir á eftirlaun; eftirlaun sem mörgum þeirra reynist erfitt að framfleyta sér á vegna þeirra miklu skerðinga sem þeim er gert að sæta vegna löggjafar um eftirlaun frá almannatryggingum.

Framsýn stéttarfélag hefur látið sig málefni eldri félagsmanna varða og njóta þeir áfram réttinda í félaginu, þrátt fyrir að þeir láti af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Félagið hefur staðið fyrir málþingi um málefni eldri borgara og heitið Gráa hernum framlagi vegna málsóknar gegn íslenska ríkinu varðandi skerðingar á lífeyri.

Án efa verður áhugavert að hlusta á Ásdísi hér á eftir, en hátíðarhöldin á Húsavík í ár eru sérstaklega tileinkuð baráttu eldri borgara fyrir réttlæti og mannsæmandi lífi.

Ágæta samkoma!

Fallinn er frá góður félagi og mannvinur, Kristján Ásgeirsson. Verkalýðsforingi, bæjarfulltrúi, útgerðarmaður, en fyrst og fremst góður og gegnheill maður sem vildi öllum vel.

Kiddi Ásgeirs eins og hann var ávallt nefndur kom lengi að störfum fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur, sem stjórnarmaður, formaður og varaformaður. Hann mótaði félagið til framtíðar ásamt góðu samstarfsfólki og kom að því að opna fyrstu skrifstofu félagsins um 1970.

Áður var ekki óalgengt að fólk leitaði heim til hans eftir aðstoð. Kiddi tók öllum vel og opnaði heimili sitt fyrir þeim sem á þurftu að halda og töldu á sér brotið.

Þegar saga verkalýðsbaráttu á Húsavík er sögð koma ættir Kidda fyrir, allt frá stofnun fyrstu verkalýðsfélaga á Húsavík þar til hann ákvað að stíga til hliðar árið 1992, eftir 27 ára farsælt starf í þágu verkafólks í þingeyjarsýslum.

Föðuramma Kidda, Þuríður Björnsdóttir, var fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Vonar og Ásgeir Kristjánsson faðir hans var lengi formaður Verkamannafélags Húsavíkur.

Árið 1976 komst Kiddi í þá sérstöku stöðu að vera formaður í verkalýðsfélagi, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Höfða hf. sem stofnað var um rekstur togarans Júlíusar Havsteen það ár. Þessi tengsl vöktu eðlilega upp margar spurningar á þeim tíma og voru ekki óumdeilanlegar. Hann var sagður sitja hringinn í kringum borðið.

Ekki var vilji meðal félagsmanna til þess að Kiddi hætti afskiptum af verkalýðsmálum, enda mjög virtur fyrir störf sín innan félagsins og heildarsamtaka verkafólks. Þess í stað ákvað hann að stíga til hliðar sem formaður, en taka að sér varaformennsku í félaginu. Kiddi sagði þetta ekkert mál, menn mættu bara aldrei gleyma uppruna sínum og fyrir hvað þeir stæðu.

Orðin sem hann mælti eitt sinn í útvarpsviðtali lýsa manngerð Kristjáns Ásgeirssonar kannski best: „ Ég hef sem betur fer alltaf verið í þeirri stöðu að geta talað frá hjartanu og hef aldrei haft verulegar áhyggjur af eigin heilsu. En aftur á móti hef ég verið voðalega viðkvæmur andspænis veikindum annarra“. Tilvitnun lýkur.

Því hefur verið haldið fram að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Húsavíkur hafi almennt verið betri en hjá sambærilegum stéttarfélögum. Það hafi ekki síst verið Kristjáni Ásgeirssyni að þakka, enda hafði hann góða yfirsýn yfir málin og lagði ríka áherslu á atvinnuöryggi, góð laun og félagslega hugsun í rekstri fyrirtækja.

Kiddi þótti mikill málafylgjumaður og var einlægur baráttumaður fyrir ýmsum mikilvægum réttindamálum sem þykja sjálfsögð í dag, s.s. atvinnuleysistryggingum, stofnun lífeyrissjóða og að félagsmenn stéttarfélaga hefðu aðgengi að öflugum sjúkrasjóðum.

Hann var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélagi Húsavíkur á 95 ára afmæli þess árið 2006.

Fyrir hönd Framsýnar stéttarfélags votta ég fjölskyldu Kristjáns Ásgeirssonar dýpstu samúð. Við minnumst látins félaga með miklu þakklæti fyrir hans óeigingjörnu störf í þágu verkafólks í Þingeyjarsýslum. Megi minning um góðan mann lifa um ókomna tíð.

Að svo mæltu langar mig að biðja ykkur um að rísa úr sætum og minnast Kristjáns Ásgeirssonar.

Deila á