Úrbætur í húsnæðismálum varða alla landsmenn

Í meðfylgjandi bréfi Framsýnar stéttarfélags til forsætisráðherra er lögð áhersla á að horft verði til landsins alls er viðkemur úrbótum í húsnæðismálum sem nú eru til umræðu. Nýlega skilaði átakshópur tillögum um aukið framboð á íbúðum og aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Að mati Framsýnar hefði starfshópurinn þurft að horfa sérstakalega á vanda landsbyggðarinnar þar sem húsnæðiskortur er víða alvarlegt vandamál. Því miður fer lítið fyrir sértækum aðgerðum hvað landsbyggðina varðar. Hins vegar er horft sérstaklega á höfuðborgarsvæðið. Meira jafnvægi hefði þurft að vera í tillögum starfshópsins varðandi úrbætur í húsnæðismálum milli höfðuðborgasvæðisins og landsbyggðarinnar. Því verður ekki á móti mælt að vandinn er mikill á höfuðborgarsvæðinu en hann er einnig til staðar á landsbyggðinni, því mega menn ekki gleyma í umræðunni. Hér má lesa bréf Framsýnar til forsætisráðherra: 

Forsætisráðuneytið
Katrín Jakobsdóttir forsætisráherra
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
101 Reykjavík 

Vegna tillagna átakshóps um húsnæðismál

Framsýn stéttarfélag hefur lengi barist fyrir því að almenningur í landinu, ekki síst verkafólk, hafi möguleika á því að eignast þak yfir höfuðið eða standi til boða leiguhúsnæði á sanngjörnu leiguverði í stað okurleigu sem tröllríður leigumarkaðinum.

Til viðbótar hefur Framsýn stéttarfélag ítrekað bent á mikilvægi þess að tillögur sem væru lagðar fram af stjórnvöldum, sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins til lausnar þessum mikla vanda tækju mið af þörfum allra landsmanna, ekki eingöngu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og/eða í stærstu þéttbýliskjörnum landsins.

Niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði eru að mörgu leiti áhugaverðar enda gangi þeir eftir. Átakshópurinn hefði hins vegar þurft að horfa til sértækra aðgerða á svokölluðum köldum svæðum á landsbyggðinni enda fyrirliggjandi vandi sem þarf að leysa. Því miður er ekki að finna slíkar tillögur í niðurstöðum starfshópsins.

Það er von Framsýnar stéttarfélags að í frekari umfjöllun um niðurstöður átakshópsins verði landsbyggðinni gefið aukið vægi og vill félagið koma eftirfarandi ábendingum á framfæri;

  1. Telja verður jákvætt að viðurkennt er að markaðsbrestur sé á húsnæðismarkaði og inngrip stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélög og sveitarfélög sé óhjákvæmilegt við þessar aðstæður.
  2. Ísland er svæðaskipt með tilliti til húsnæðismarkaða;
    1. Höfuðborgarsvæðið þar sem markaðsbrestur lýsir sér með því að takmarkað framboð húsnæðis hefur leitt til mjög mikillar verðbólu og leiguokurs.   Nýjar íbúðir eru úr takti við þarfir þess almennings sem hvorki getur né vill kaupa íbúð á yfirverði. Leigumarkaður hefur lent í algeru brask-umhverfi þar sem okur og óöryggi er raunveruleikinn sem snýr að almenningi.
    2. Stórir hlutar landsbyggðarinnar líða fyrir það að húsnæðisverð og lánakjör standa ekki undir nýbyggingarverði.   Almenningur leggur því ekki í slíkar fjárfestingar og lánastofnanir gera veðkröfur sem þrengja enn frekar að möguleikum fólks. Takmarkaður leigumarkaður er til staðar á landsbyggðinni almennt og í vöxt færist að fjarbúandi einstaklingar taki íbúðir út úr rekstri sem lögheimilisíbúðir.
  3. Því er sérstaklega fagnað að samstaða sé um að setja leigumarkaði og leiguverðlagningu skýrari ramma. Hvatt er til þess að sérstaklega sé horft til Þýskalands (Mietbremse-leigubremsa) og Svíþjóðar í því samhengi.
  4. Um leið og tekið er undir mikilvægi þess að leysa húsnæðismál þeirra sem allra verst standa – teljast til “lágtekjuhópanna” – þá er afar háskalegt að fjalla um húsnæðismálin út frá slíkri flokkun.   Með því að beita almennum lausnum og efla stöðu neytenda gagnvart verðlagningu og sem kaupendur á markaði gagnvart fjármögnun – þá mun sá hópur sem telst til “hinna verst settu” dragast saman nokkuð hratt. Þörfin fyrir sértækar og lausnir mun þannig minnka og útgjöld hins opinbera af slíkum úrræðum lágmarkast.   Með þannig útfærslu mun einnig verða til betra samfélag þar sem lakar settir og betur settir búa hlið við hlið og leggja saman fremur en að vera aðgreindir vegna þvingaðrar flokkunar húsnæðisstuðnings.
  5. Tillögur átakshópsins eru því miður afar einhæfar og miðast við höfuðborgarsvæðið og sértækar aðstæður í kring um “almenningssamgöngukerfi” framtíðarinnar.   Sáralítð er tekist á við þann raunveruleika sem blasir við almenningi á landsbyggðinni, sveitarfélögum og þeim fyrirtækjum sem virkilega vilja leggja sitt að mörkum til að tryggja sér aðgang að öruggu starfsfólki og betra samfélagi.
  6. Liður í því að finna lausnir fyrir þá lakast settu í húsnæðismálum er að auðvelda staðbundnum íbúðafélögum/húsnæðissamvinnufélögum að breikka framboð sitt og taka að sér byggingar íbúða með stofnstyrkjum undir lögum um svokallaðar almennar íbúðir nr. 52/2016 – samhliða almennum búseturéttaríbúðum.
  7. Mikilvægt getur verið að útvíkka almennar heimildir Íbúðalánasjóðs/Lánasjóðs sveitarfélaga til 90% lánsfjármögnunar húsnæðis óhagnaðardrifinna félaga og á “köldum svæðum” allt að 100% ef sveitarfélög eru þátttakendur í slíkri uppbyggingu með beinum og óbeinum framlögum/ívilnunum.   Slíkt þarf að útfæra með stofnun sérstakra og nýrra lánaflokka með lægri vöxtum en sértækum forgangi eða “samningsbundnum/þvinguðum” kaupum lífeyrissjóða á tilteknum fjárhæðum.
  8. Til að byggja upp leigumarkað fyrir almenning (á landsbyggðinni) þarf að breyta lögum um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003 þannig að þar verði beinlínis opnað á sameiginlegan rekstur leigu- og búsetuíbúða – í einu félagi og með virkri þátttöku sveitarfélaga og velvildarfjárfesta (fyrirtækja).   Með því verður almennur rekstrargrunnur húsnæðissamvinnufélaga sterkari og neytendum auðveldara að eiga aðgang að öryggi án hættu á uppsögnum eða fjárhagslegum ofurbyrðum.
  9. Til þess að auðvelda hagkvæma raðsmíði og magninnkaup íbúða með innflutning og/eða bættri tækni innanlands er nauðsynlegt að veita íbúðafélögum neytenda – í samstarfi við sveitarfélög og stéttarfélög – hvatningu og beinan fjárstuðning til að þróa og halda utan um stærri verkefni á sviði húsnæðismála í þágu almennings.     Örlítill vottur að slíku verkefni er kominn af stað hjá Íbúðalánasjóði en hefur ekki náð neinu flugi enn sem komið er.
  10. Leiguvernd; Eins og mál hafa þróast á íslenskum leigumarkaði er afar mikilvægt að stjórnvöld grípi inn í með embætti/þjónustu við leigjendur. Hugsanlega með „Embætti umboðsmanns leigjenda“. Slíkt þekkist innan stjórnsýslunnar sem skilað hefur góðum árangri s.s. Embætti umboðsmanns skuldara og Umboðsmanns Alþingis. Í dag eiga leigjendur ekki auðvelt með að leita aðstoðar opinberra fagaðila komi upp ágreiningur milli þeirra og leigusala sem er daglegt brauð.

Þessum hugmyndum og skoðunum Framsýnar stéttarfélags er hér með komið á framfæri við ríkisstjórn Íslands með von um að unnið verði áfram með niðurstöðu átakshópsins og hlustað verði á rödd landsbyggðarinnar sem kallar eftir lausn á fyrirliggjandi vanda í húsnæðismálum víða um land.

 

Deila á