Framsýn stéttarfélag og Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum hafa undanfarnar vikur átt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna PCC BakkiSilikon hf. um breytingar á sérkjarasamningi aðila sem rennur út um áramótin.
Stéttarfélögin hafa þrýst á að samningaviðræðurnar kláruðust fyrir áramót með nýjum samningi. Það hefur því miður ekki gengið eftir enda mikið verk að vinna. Meðal annars er unnið að því að þróa frammistöðutengd bónuskerfi, sem ætlað er að bæta kjör í verksmiðjunni og auka um leið verðmæti framleiðslunnar. Metnaður PCC er að framleiða hágæðavöru.
Í ljósi þessa sendi PCC BakkiSilicon hf. frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fyrirtækið tekur heilshugar undir áherslur stéttarfélaganna um mikilvægi þess að hraða viðræðum um endurnýjaðan sérkjarasamning. Til að koma til móts við kröfur stéttarfélaganna lýsir PCC því yfir að nýr kjarasamningur komi til með að taka gildi frá 1. janúar 2019 enda takist samningar. Til að liðka fyrir samningum ætlar PCC að hækka starfsmenn um allt að 6% sem tengist starfsaldri og hæfni frá og með næstu áramótum þrátt fyrir að samningar hafi ekki náðst auk þess að tryggja öllum starfsmönnum 8% framleiðslukaupauka frá sama tíma, það er meðan unnið er að því að þróa nýtt kaupaukakerfi í janúar.
Rétt er að geta þess að hlutdeild í 6% launahækkuninni kemur til þegar starfsmenn hafa starfað í sex mánuði hjá fyrirtækinu eða lengur enda ætlað að umbuna þeim starfsmönnum sem hafa verið við störf í fyrirtækinu eins og þekkist í almennum kjarasamningum þar sem launatöflur taka mið af starfsaldri. Starfsmenn með 12 mánaða starfsreynslu fá 6% launahækkun, aðrir starfsmenn með 6 mánaða eða lengri starfsreynslu, þó innan við 12 mánaða starfsreynslu geta fengið 4% launahækkun enda hafi þeir lokið almennri grunnþjálfun og útgefnum skyldunámskeiðum með fullnægjandi hætti að mati stjórnenda.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, fagnar útspilli PCC, það er að koma til móts við kröfur stéttarfélaganna fyrir hönd starfsmanna þrátt fyrir að ekki hafi náðst samningar. Yfirlýsing PCC hafi verið unnin í góðu samstarfi við stéttarfélögin. Að sögn Aðalsteins verður viðræðum fram haldið eftir áramótin. Vilji aðila sé að klára viðræðurnar með samningi í janúar.