Langþráður draumur, SGS og Flóinn í eina sæng í kjarabaráttu – kröfugerð SGS mun vekja athygli

Innan Starfsgreinasambands Íslands eru 19 aðildarfélög. Þau hafa nú öll veitt sambandinu samningsumboð og munu félögin því koma sameinuð að gerð kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, en núgildandi samningar renna út um áramótin. Um er að ræða sögulegan áfanga því þetta er í fyrsta skipti í sögu sambandsins sem öll aðildarfélögin framselja samningsumboðin til SGS vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Fulltrúar frá þessum 19 aðildarfélögum áttu tveggja daga vinnufund á Hótel Selfossi fyrir helgina þar sem félögin kynntu áherslur sínar og í framhaldinu voru unnin drög að nýrri að sameiginlegri kröfugerð sem gengið verður frá á morgun í Reykjavík. kröfugerð SGS verður tekin til umræðu á fundi samninganefndar Framsýnar síðar í dag. Ljóst er að hún mun vekja mikla athygli þegar hún kemur fram. Slík kröfugerð hefur ekki sést áður enda telja stéttarfélögin innan SGS að atvinnurekendur og stjórnvöld skuldi verkafólki í landinu verulegar leiðréttingar.

Mikil vinna fór fram á vegum SGS við mótun kröfugerðarinnar. Hér sitja nokkrir formenn innan sambandsins yfir drögum að kröfugerð sambandsins.

Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar fagnar samstöðu aðildarfélaga SGS. Þetta hafi lengi verið hans draumur, það er að félögin færu sameinuð í viðræður við Samtök atvinnulífsins. Hann sagði þó vinnuna við kröfugerðina ekki vera búna. Vonandi tækist að sigla samstöðunni í höfn, það væri sterkasta vopnið í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks. Þá hefði hann einnig verið þeirrar skoðunar að Landssamband íslenskra verslunarmanna ætti að koma að borðinu með Starfsgreinasambandinu. Án efa yrði slagkraftur í slíku bandalagi verkafólki til hagsbóta.

 

Deila á