Starfsmenn Sjúkraþjálfunar Húsavíkur hafa staðið í stórræðum síðustu mánuðina. Þær hrintu af stað merkilegu og þörfu átaki á Húsavík, sem fólst í því að fjölga útibekkjum á Húsavík. Markmið átaksins er auðvitað að hvetja til aukinnar útiveru og hreyfingar, sem eru skemmtilegustu, skilvirkustu og ódýrustu forvarnir sem í boði eru.
Þær löðuðu til samstarfs ýmsa aðila, t.d. Félag eldri borgara, Norðurþing, félög, stofnanir og fyrirtæki. Norðurþing annaðist uppsetningu bekkjanna og mun sjá um að greið leið verði að þeim allan ársins hring. Félög, stofnanir og fyrirtæki lögðu síðan til framlög til kaupa á bekkjum. Heildarárangur þessara aðila er sá að 16 nýir bekkir hafa verið settir upp á Húsavík.
Framsýn, stéttarfélag og Þingiðn, stéttarfélag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum eru virkir og stoltir þátttakendur í verkefninu.
Í samvinnu við Húsavíkurstofu verður gert kort sem sýnir góðar gönguleiðir á Húsavík og staðsetningu bekkjanna. Kortið verður aðgengilegt á heimasiðu Norðurþings (www.nordurthing.is).
Þann 27. september s.l. voru bekkirnir vígðir. Meðfylgjandi myndir voru teknar við það tilefni.