Alls greiddu 3.514 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2017 en greiðandi félagar voru 2.920 árið 2016. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fjölgaði verulega milli ára og hefur félagið aldrei verið fjölmennara. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.151 karl og 1.363 konur sem skiptast þannig, konur eru 39% og karlar 61%. Skýringin liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf.
Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið.
Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 302, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 8 til 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu.
Þá má geta þess að 482 launagreiðendur greiddu launatengd gjöld til Framsýnar á síðasta ári og fjölgaði þeim um 13 á milli ára. Árið 2016 greiddu 469 launagreiðendur til félagsins.
Félagsmenn þann 31. desember 2017 voru samtals 3.687. Hlutfallslega starfa flestir við ferðaþjónustu.
Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2017 eftir röð:
Beck&Pollitzer Polska
Munck Íslandi ehf.
GPG. Seafood ehf.
Sveitarfélagið Norðurþing
Norðlenska matarborðið ehf.
Ríkisjóður Íslands
Íslensk verkmiðlun
Íslandshótel hf.
Jarðboranir hf.
Norðursigling ehf.
Beck&Pollitzer Polska greiddi mest allra atvinnurekenda í iðgjöld til Framsýnar á árinu 2017. Árið áður greiddi Munck Íslandi ehf. mest til félagsins. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar.