Nokkrir ofurhugar komu að landi í morgun með fullan bát af kræklingi til áframeldis. Aflinn var á annað tonn. Tvö fyrirtæki, Víkurskel og Sæskel hafa verið stofnuð á Húsavík um ræktun á kræklingi til sölu á markaði en þau hafa verið starfandi í tvö til þrjú ár. Eigendurnir hafa tekið höndum saman um að vinna sameiginlega að því að gera ræktun á kræklingi í Skjálfanda að arðsömum atvinnuvegi. Búið væri að koma fyrir lirfulínum í Saltvíkinni, Héðinsvík og við Kaldbaksnef. Þeir sögðu að ræktunin hefði ekki byrjað vel, en framhaldið lofaði góðu og þeir væru fullir bjartsýni.
Í stuttu máli fer ræktunin þannig fram að lagðar eru út sérstakar línur sem kræklingalirfur setjast á. Eftir um tvö ár eru línurnar teknar upp og lirfurnar flokkaðar og settar í sérstaka sokka í landi sem komið er svo aftur fyrir í sjó á línunum til áframhaldandi eldis. Ári síðar kemur síðan uppskeran í ljós þegar sokkarnir eru teknir í land. Þá hefur skelin náð fullum þroska eftir þrjú ár í sjó og klár til sölu á markaði. Víkurskel og Sæskel eru með fjórar línur í sjó. Þeir áætla að hver lína geti gefið um 6 tonn á ári enda verði línan ekki fyrir áfalli af mannavöldum eða náttúruöflum. Geir, Jóel og Kristján voru bjartsýnir á framtíðina. Ljóst er að ef vel tekst til, er hér um að ræða áhugaverðan atvinnurekstur sem byggir á ræktun og vinnslu á kræklingi sem vonandi á eftir að ganga vel og skapa atvinnu á Húsavík. Hugsanlega er þetta dæmi um „þetta“ eitthvað annað sem mönnum hefur orðið svo tíðrætt um í atvinnumálum Þingeyinga. Heimasíða stéttarfélaganna óskar Víkurskel og Sæskel velfarnaðar í áhugaverðum atvinnurekstri.
Þeir fiska sem róa.
Sprotarnir þrír, Geir Ívarsson, Kristján Philips og Jóel Þórðarson hafa stofnað fyrirtæki um kræklingarækt í Skjálfanda. Vonandi eiga fyrirtæki þeirra, Víkurskel og Sæskel eftir að eflast í framtíðinni. Togarinn í bakgrunni tengist ekki þeirra rekstri enda í smáum stíl, en það á hugsanlega eftir að breytast þegar flóinn verður orðinn fullur af kræklingalínum. Þá þurfa þeir væntanlega á stórvirkum vinnsluskipum að halda, hver veit?
Einar Össa og Birgir Þór mættir á bryggjuna um hádegisbilið til að hjálpa til.
Kræklingalirfurnar komnar í þriggja metra sokk. Þær munu halda áfram að þroskast og verða tilbúnar á markað eftir eitt ár.
Kræklingalirfurnar eru ekki stórar í dag en verða það eftir eitt ár í sokkum.
Jóel bregður hér á leik með lirfurnar góðu sem vonandi eiga eftir að efla atvinnulífið á Húsavík í framtíðinni.