Í tilefni af 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar 28. apríl 2018 stendur Framsýn fyrir afmælisfagnaði í Menningarmiðstöð Þingeyinga laugardaginn 28. apríl kl. 14:00. Sérstakur gestur fundarins verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Eftir að ávörp hafa verið flutt verður opnuð ljósmyndasýning af konum við störf á tímum verkakvennafélagsins. Þá verða tónlistaratriði í boði, Kvennakór Húsavíkur kemur fram undir stjórn Hólmfríðar Benediktsdóttur, við undirleik Steinunnar Halldórsdóttur. Þá verða Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson á svæðinu og taka nokkur lög. Auk þess verður lesið upp úr ljóðabók með ljóðum eftir Björgu Pétursdóttur, sem kemur út þennan dag. Bókin er gefin út í samstarfi við afkomendur Bjargar, en hún var ein af frumkvöðlunum að stofnun Verkakvennafélagsins Vonar. Þeir sem hafa skráð sig fyrir bókinni fá hana afhenta á afmælishátíðinni og þeir aðrir sem mæta og vilja eignast þessa einstöku bók. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti meðan á dagskránni stendur.
Við viljum hvetja konur sem búa svo vel að eiga íslenska búninginn til að klæðast honum í tilefni dagsins og heiðra með því minningu forvígiskvenna þingeyskrar verkalýðsbaráttu.