Skráð atvinnuleysi á Íslandi í ágúst var 6,7% en að meðaltali voru 11.294 atvinnulausir í ágúst. Atvinnuleysið var 7,7% á höfuðborgarsvæðinu en 5% á landsbyggðinni. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 10,4% en minnst á Norðurlandi vestra 2,2%. Þá var atvinnuleysið 6,5% meðal karla og 7% meðal kvenna.
Varðandi stöðuna milli ára þá var atvinnuleysið 2,2% á landsvísu í ágúst 2002. Það fór niður í 0,9% í sama mánuði árið 2007, árið fyrir hrunið. Í ágúst 2009 var það komið í 7,7% og í ágúst 2010 var það komið í 7,3%. Í ágúst í ár var atvinnuleysið hins vegar 6,7%. Miðað við þessar upplýsingar fer atvinnuástandið á landsvísu batnandi milli ára sem full ástæða er til að gleðjast yfir.
Ef við skoðum svo fjölda atvinnulausra í lok ágúst á Norðurlandi eystra og á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum má sjá að alls voru 727 skráðir atvinnulausir í lok mánaðarins. Flestir þeirra voru skráðir á Akureyri/Akureyrarkaupstað eða 516. Á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum voru 109 skráðir atvinnulausir á sama tíma. Flestir þeirra hjá Norðurþingi eða 62, Þingeyjarsveit 22, Langanesbyggð 12 og hjá Skútustaðahrepp 8. Færri voru atvinnulausir í öðrum sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Þrátt fyrir þetta atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum hefur atvinnuástandið almennt verið gott á svæðinu í sumar og verður það vonandi fram yfir sláturtíð á Húsavík og Kópaskeri. Frá þeim tíma má svo búast við að það aukist frekar, ekki síst þar sem á haustin dregur verulega úr starfsemi ferðaþjónustunnar í Þingeyjarsýslum.