Eins og áður hefur komið fram stendur Framsýn, stéttarfélag fyrir útgáfu á sérstöku afmælisblaði í tilefni af því að í ár eru 100 ár eru liðin frá stofnun verkakvennafélagsins Vonar en félagið var stofnað sunnudaginn 28. apríl 1918 í fundarsal Húsavíkur.
Blaðið verður gefið út í 2000 eintökum og dreift inn á öll heimili á félagssvæði Framsýnar, stéttarfélags. Útgáfudagur hefur ekki verið ákveðinn en ljóst er að valinn verður dagur í byrjun maí.
Verkefnið fer vel af stað en efnistök verða af ýmsum toga. Svipmyndum úr sögunni verður brugðið upp í máli og myndum, viðtöl og pistlar þar sem sérstök áhersla er lögð á verkalýðsbaráttu í fortíð, nútíð og framtíð og auðvitað margt fleira.
Fyrir helgina leit hin pólsk-húsvíska Kasia Osipowska-Cieslukowska inn á skrifstofu ritstjóra og ræddi við hann um lífið í Póllandi, komuna til Íslands og hvernig það er að aðlagast samfélaginu á Húsavík en hún segist hæst ánægð í bænum og sér fyrir sér að búa hér til frambúðar.
Þá heimsótti ritstjóri ásamt Ósk Helgadóttur merkiskonuna Hólmfríði Sigurðardóttur í Sjávarborg. Hún er 98 ára gömul en ennþá ern og öll hin hressasta og sagði frá lífsbaráttunni á fyrrihluta síðustu aldar.