Rétt fyrir kl. 17:00 í dag komu kæjakræðararnir Riaan Manser og Dan Skinstad frá Suður Afríku til Húsavíkur og náðu þar með markmiði sínu að róa umhverfis landið á kæjak. Ferð þeirra hófst frá Húsavík í mars 2011. Félagarnir hafa lent í alls konar veðrum, glímt við misjafnar lendingar við strendur landsins og þurft að yfirstíga ýmsa aðra erfiðleika. Þrátt fyrir það börðust þeir áfram til að ná markmiðinu að róa umhverfis landið. Hópur fólks tók vel á móti þeim við komuna til Húsavíkur í dag. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru þegar þeir námu land í Suðurfjöru á Húsavík rétt í þessu.
Kæjakræðararnir Riaan Manser og Dan Skinstad koma að landi eftir erfiða sjóferð umhverfis Ísland.
Félagarnir voru eðlilega glaðir, enda takmarkinu náð.
Riaan Manser og Dan Skinstad þökkuðu öllum þeim sem aðstoðuðu þá við ferðina og Íslendingum fyrir móttökurnar sem væru þeim ómetanlegar.
Að sjálfsögðu var skálað fyrir góðu verki!!
Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings færði ofurhugunum blómvendi frá sveitarfélaginu.
Þeir voru greinilega ekki búnir á því og klárir í aðra ferð ef marka má þessa mynd.