AN fundaði á Illugastöðum um helgina

Tæplega 90 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 35. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal um helgina. Þingið tókst í alla staði mjög vel. Skipað var í fjóra vinnuhópa þar sem fjallað var um vinnumarkaðsmál, menntamál, jafnréttismál og velferðarmál. Fjórar ályktanir voru samþykktar samhljóða á þinginu og má lesa þær hér fyrir neðan.

Fjölmargir gestir mættu á þingið og voru með erindi. Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, fjallaði um vinnumarkaðinn í fortíð, nútið og framtíð og um fækkun starfa og menntaþörf. Andri Már Helgason, frá Advania, fjallaði um raunheima tækninnar. Valgeir Magnússon, framkæmdastjóri SÍMEY, fjallaði um mikilvægi menntunar á vinnumarkaði. Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, fjallaði um hlutverk og gildi kjarasamninga á breyttum vinnumarkaði. Tryggvi Hallgrímsson, frá Jafnréttisstofu, fjallaði um kvennastörf og karlastörf og velti fyrir sér spurningunni er jafnrétti til staðar á vinnumarkaði í dag. Fjórir ungir Þingeyskir og Eyfirskir þingfulltrúar ræddu um framtíðarsýn ungs fólks til stéttarfélaga. Að lokum flutti Hákon Hákonarson, fyrrum formaður FMA, stutta samantekt um sögu Alþýðusambands Norðurlands, en sambandið varð 70 ára fyrr á árinu.

Nýr formaður AN var kosinn Bóas Jónasson, frá Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri. Með honum í stjórn eru Ósk Helgadóttir, frá Framsýn – stéttarfélagi, og Vigdís Þorgeirsdóttir frá Samstöðu. Varamenn í stjórn eru Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, Sigríður Jóhannesdóttir, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, og Bjarki Tryggvason, frá Öldunni – stéttarfélagi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Formaður AN, Ósk Helgadóttir flutti skýrslu stjórnar á þinginu.

Ályktun um jafnréttismál

35.þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir áhyggjum yfir hægfara þróun í jafnréttismálum. Alþýðusamband Norðurlands telur brýna þörf á eftirfarandi aðgerðum:

  • Lögum um jafnlaunavottun í fyrirtækjum verði framfylgt
  • Störf verði metin til jafns óháð kyni
  • Markvisst átak verði sett af stað til að stuðla að hugarfarsbreytingu hjá báðum kynjum, m.a. með fræðslu og kynningarefni
  • Stórtækt átak verði gert í dagvistunarmálum

Ályktun um menntamál

  1. þing Alþýðusambands Norðurlands ályktar að allir skuli eiga jafnan rétt til náms. Menntun við hæfi allra skuli vera gjaldfrjáls. Aukið fjármagn verði sett í málaflokkinn. Þing AN telur:
  • Að koma þurfi í veg fyrir íþyngjandi kostnað við öflun menntunar t.d. vegna búsetu.
  • Að ákveðnir hópar glími við óviðunandi valkosti í samgöngum og fjarskiptum sem komi í veg fyrir öflun menntunar.
  • Að auka þurfi fjölbreytni í námsframboði í heimabyggð og leggja aukna áherslu á sköpun og rökhugsun.
  • Að tryggja þurfi að fólk geti snúið aftur til náms á fullorðinsárum.
  • Að efla þurfi símenntunarstöðvar og auka möguleika á fjarnámi.
  • Að greina þurfi menntunar- og færniþörf á vinnumarkaði til framtíðar og að menntun taki mið af því.

Ályktun um vinnumarkaðsmál

  • Að tryggja stöðugleika er grundvöllur fyrir auknum kaupmætti.
  • Að taka húsnæðiskostnað út úr neysluvísitölu.
  • Að sýna samstöðu allra samtaka launafólks í landinu.
  • Að endurskoða starfsreglur og lög sem gilda um kjararáð.

Ályktun um velferðarmál

  1. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum yfir stöðu velferðarmála í fjórðungnum. Aukin fátækt og vaxandi misskipting leiðir af sér slæmt samfélag sem brýtur í bága við grunngildi norræns velferðarsamfélags. Þingið krefst eftirfarandi aðgerða í baráttunni fyrir betri velferð og bættu samfélagi:
  • Góð heilbrigðisþjónusta á Norðurlandi fyrir alla óháð búsetu og efnahag.
  • Heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og öllum aðgengileg.
  • Bæta þarf verulega geðheilbrigðisþjónustu og stuðning við aðstandendur langveikra.
  • Sveitarfélög í fjórðungnum beiti sér fyrir því að greiða götu almennra leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, til að auka aðgang allra að mannsæmandi íbúðarhúsnæði. Húsnæði er mannréttindi ekki forréttindi!
  • Tekjutengingar í lífeyriskerfinu verði afnumdar.

Hér má sjá myndir frá þinginu sem var mjög annasamt.

 

Deila á