„Okkar tími mun koma……….“

María Axfjörð sem starfar sem bókari á Akureyri flutti magnaða ræðu á fjölmennum fundi Framsýnar í gær um málefni eftirlaunafólks. Hún gaf okkur leyfi til að birta hana.

Fundarstjóri, ágætu Húsvíkingar

„Okkar tími mun koma……….“ var yfirskrift ráðstefnu sem Háskólinn á Akureyri hélt í október s.l. og ég flutti þennan fyrirlestur á. Þessi yfirskrift minnti mig strax á orð sem ég las einu sinni í viðtali við þá mætu konu Vilborgu Dagbjartsdóttur. Mér fannst þau svo umhugsunarverð: “Fólk er alltaf að tala um að tíminn sé að fljúga frá því. En líf okkar er ekki að styttast, líf okkar lengist á hverjum degi um heilan dag og við eigum að gleðjast yfir því. Ég finn yfir gleði yfir því á hverjum degi að ég skuli vera búin að fá einn dag í viðbót“

Þetta finnst mér svo falleg hugsun um tímann, sem er svo skemmtilegt fyrirbæri.

Til að hafa það á hreinu, strax í upphafi máls, þá vil ég taka það fram að ég gef mig ekki út fyrir að vera sérfræðingur í neinu af því sem mér er ætlað að tala hér um, hvorki í öldruðum, störfum, né störfum aldraðra.

En hver er ég þá ? ………………………… 63 ára kona með reynslu. Mér vefst alltaf tunga um tönn þegar ég er beðin um að þegar ég er beðin um að segja hver og hvað ég er. Ég lenti í smá vandræðum þegar verið var að kynna ráðstefnuna þarna í haust, og aftur í rauninni núna þegar Aðalsteinn vinur minn vildi frá titil til að setja í auglýsingu. Hvað á eiginlega að titla mig? Kona sem býr í Klettaborg segir ekki margt. Ég er 63 ára gömul, fædd á Akureyri, bjó lengi á Húsavík, lengst af í Sólbrekkunni og flutti til Akureyrar fyrir nærri því fimmtán árum síðan. Þegar maður hefur verið svo lánsamur að ná þessum merkilega aldri, þá ber maður auðvitað marga titla. Ég er mamma, amma, eiginkona, dóttir og fósturdóttir, barnabarn, systir, frænka…. og svo framvegis.

Ég hef líka borið nokkra titla  sem tengjast þátttöku minni í atvinnulífinu, fyrsta starfið var í sjoppunni á gamla hótelinu sem brann svo seinna, ég hef verið skrifstofustúlka og launafulltrúi, bókari, fjármálastjóri, móttökustjóri, aðstoðarhótelstjóri, og hótelstjóri í afleysingum, ritstjóri og reddari, auk þess að vera bensíntittur, ræstingakona og leiðsögumaður. Ég hef skipulagt ráðstefnur og fundi, stýrt öflugu félagi, setið í ýmsum stjórnum bæði innanlands og utan, sem sagt stjórnað í ýmsu og skipulagt allt mögulegt. Svo hef ég meira að segja stundum verið leikari og söngkona, hef svokallaða „víðtæka reynslu“ skyldi maður halda.

En, svo það sé sagt, þá hef ég ekki háskólamenntun, hvorki sem nýtist í leik eða starfi, það er alveg satt. Ég hef reyndar nokkrar einingar í Nútímafræðinni, sem ég varð að hætta í af heilsuástæðum á sínum tíma. En sennilega nýtist það illa í starfi.

En nú ætla ég að segja ykkur reynslusögu.

Fyrir rúmlega tveimur árum, á fallegum haustdegi í september 2014 mætti ég  í vinnuna mína eins og venjulega, þar sem ég hafði starfað undanfarin 11 ár. Þetta var vinnustaður og starfsumhverfi sem ég þekkti og var mér kært. Ég hafði notið þess í þessu starfi að vera með flinku og góðu fólki í að byggja upp fyrirtæki alveg frá grunni í vaxandi atvinnugrein og naut þar trausts og velvilja. Sem sagt, ég naut mín virkilega í vinnunni og vissi ekki annað en að allt væri í blóma. En þennan fallega morgun kom framkvæmdastjórinn í vinnuna með tilbúið uppsagnarbréf til mín, eftir stjórnarfund daginn áður. Og hlutirnir gerðust hratt. Áður en vikan var liðin þá var ég hætt í vinnunni. Komin „út á götuna“ svo það sé orðað svolítið dramatískt. Auðvitað með minn uppsagnarfrest og allt það á hreinu, allt gert löglega og rétt, en enga vinnu lengur. Ástæður uppsagnarinnar voru………………  skipulagsbreytingar!

Að segja að mér hafi brugðið við uppsögnina er ekki rétt. Ég fékk áfall. Ég hefði aldrei trúað því fyrirfram hvað þetta var erfitt. Það reyndi verulega á mín lífsmottó að vera alltaf jákvæð og bjartsýn, hafa trú á sjálfri mér, taka áskorunum og sjá alltaf stóru myndina. Gefa öllu séns.

En það verð ég að segja að þetta var heilmikil lífsreynsla.

Ég hóf strax leit að nýrri vinnu. Og þá byrjaði nú fjörið, og þá reyndi verulega á þetta með bjartsýnina og jákvæðnina.

Ég sótti strax um alla þá vinnu sem var auglýst. Sendi ferilsskrána mína með, taldi að þar kæmi vel fram hversu fjölbreytta og langa reynslu ég hefði. Til að gera langa sögu stutta, þá fékk ég ekki mikil viðbrögð,stundum engin, en þó komst ég í nokkur viðtöl. Ég var býsna góð með mig til að byrja með, enda taldi ég mig hafa góða og langa og fjölbreytta reynslu, gott orðspor í vinnu, vissi að ég var hraust og til í ýmislegt. Mjög áhugasöm um lífið og tilveruna og fylgist vel með. Einhver spurði mig hvort ég vildi ekki bara hætta alveg að vinna, komin á þennan aldur, en mér fannst ég alls ekki vera komin að þeim tímamótum. Mig langaði bara til að finna góða, krefjandi vinnu þar sem ég væri metin að verðleikum, þar sem ég gæti mætt á morgnana á snyrtilegan vinnustað, fengið mér gott kaffi, kveikt á útvarpinu og byrjað að vinna. Ég lét það ekkert aftra mér frá því að sækja um störf, þótt beðið væri um háskólamenntun, taldi mig hljóta að eiga alveg möguleika á við einhvern nýútskrifaðan úr háskóla…. ég með alla mína reynslu !

Til að gera mjög langa sögu stutta, þá sótti ég um milli 20 og 30 störf á þessum tíma, og þurfti að éta ýmislegt ofaní mig. Mér hefur, satt best að segja, aldrei á ævinni nema á þessu atvinnuleitartímabili, fundist ég vera ómenntuð kelling.

Og ég sem er svo ánægð með að hafa náð þessum aldri, ég er orðin eldri en báðir foreldrar mínir náðu að verða.

En það var auðvitað ekki bara aldurinn, heldur líka þessi skortur minn á háskólamenntun. Og reynslan virtist ekki telja neitt upp á móti því.

Ég er hugsi yfir því sem ég lærði þarna. Ég hafði auðvitað oft heyrt talað um að það væri erfitt fyrir eldra fólk sem missir vinnuna að  finna nýja vinnu. En þarna upplifði ég það í fyrsta skipti á eigin skinni.

Erum við virkilega svona ríkt samfélag að við höfum efni á því að hafna allri reynslu og þekkingu fólks sem farið er að nálgast fimmtugs-og sextugsaldurinn? Varla getur það talist þjóðhagslega hagkvæmt að fólk með fulla starfsorku og gífurlega reynslu fari hálfnauðugt á eftirlaun um sextugt?… eða fyrr? Vissulega er til fullt af fólki sem getur ekki beðið eftir því að geta hætt að vinna, og allt fínt með það. Sem betur fer eru ekki allir eins með það. Hann bróðir minn sem var einn af þeim sem RÚV sagði upp í stóru uppsögnunum fyrir nokkrum árum, er mjög reyndur og fær tæknimaður. Hann er menntaður í sínu fagi og hafði verið yfirmaður á sinni deild í a.m.k. 10-15 ár, með mikil mannaforráð, stýrt mörgum mjög tæknilega flóknum beinum útsendingum, hann hefur unnið við það í vetur að keyra út kjöt. Hann hefur að öðru leyti verið atvinnulaus síðan RÚV sparkaði honum.

Þeta er auðvitað RUGL. Þetta er sóun á reynslu og þekkingu og kröftum fullfrísks fólks.

Mér fannst ég líka upplifa í viðbrögðum, og skorti á viðbrögðum við mínum atvinnuumsóknum, hlut sem ég kýs að kalla menntahroka. Og ég ákvað að segja það bara upphátt, tala hreinskilnislega um það. Ekki láta eins og það sé ekki hluti af þessu öllu. Því það er það nefnilega.

Það er endalaust auglýst eftir „háskólamenntun sem nýtist í starfi“….. fyrir ólíklegustu störf.

Iðnmenntum sem nýtist í starfi er sjaldnar nefnd, eða bara almennt góð menntun sem nýtist í starfi. Nei, háskólamenntun skal það vera.

Ég er þannig skapi farin að þetta gerir mig reiða og pirraða. Mér finnst þetta vera þröngsýni – og hroki.

Núna síðast fannst mér þessi viðhorf koma fram s.l. haust í umræðum um það að eldri borgarar gætu kannski hjálpað til og komið inn á leikskóla og frístundaheimili. Þar sem sárvantar vinnuafl svo til vandræða horfir. Þar komu strax fram þessi pappakassalegu viðhorf. Og urðu auðvitað til þess að þær hugmyndir sem þarna komu fram, komust ekki í framkvæmd. Samt vantar fólk á leikskólana og ekki fást þar nægilega margir starfsmenn með „háskólamenntun sem nýtist í starfi“

Og alls ekki misskilja mig,í guðanna bænum! Ég er auðvitað alls ekki á móti því að fólk sé menntað. Að sjálfsögðu á fólk að mennta sig vel, helst líka að vera að mennta sig allt lífið. Ég vil t.d. að heimspeki og siðfræði séu kennd strax í grunnskóla, held að það myndi búa blessuð börnin okkar vel bæði undir lífið sjálft og auðvitað líka frekara nám. En ég fæ því ekki komið inn í minn haus að það sé eitthvað merkilegra að hafa svokallaða „æðri menntun“ eins og háskólamenntun er gjarnan kölluð, heldur en að hafa annars konar menntun. Og líka þetta, af hverju heitir þetta „æðri“ menntun?

Nú er ég sennilega komin út fyrir efnið, svona er þetta þegar maður brennur fyrir einhverju.

­Til að halda áfram með söguna mína og atvinnuleitina: Eftir níu mánuði án atvinnu, kom að því að ég sá enn eina auglýsinguna þar sem auglýst var eftir bókara, og viti menn, einmitt með sérþekkingu á því bókhaldskerfi sem ég þekki best og hef unnið mest með. Og ég sendi strax inn umsókn.

Og undrið skeði, allt í einu hitti ég þar fyrir stjórnendur sem litu á það sem kost að ég hefði mikla og fjölbreytta reynslu, að ég væri heilsuhraust og ekki með lítil börn lengur. Og kennitalan mín, hún glansaði þarna.

Og þar er ég í dag. Í góðri krefjandi vinnu, þar sem ég mæti á morgnana á snyrtilegan vinnustað, fæ mér kaffi, kveiki á útvarpinu og byrja að vinna.

En vissilega hefur þetta haldið áfram að velkjast í kollinum á mér. Þetta með að samfélagið hafi efni á að hafna vinnukröftum einhvers á forsendum kennitölunnar. Því það er virkilega þannig. Hugsið ykkur bara hvað það kostar mikið að þjálfa upp nýtt starfsfólk, og hvað reynsla í starfi er í raun dýrmæt í peningum. Hugsið ykkur hvað væri hægt að nýta þessa einstaklinga til hags fyrir samfélagið okkar?

Og líka þetta: af hverju er ég heppin að hafa fengið nýja vinnu eftir sextugt ??? Er það rétt hugsun að það sé heppni?  Mér finnst eiginlega að ég hafi alveg átt það skilið að fá þessa góðu vinnu, fyrst ég sóttist eftir því. Ég gæti haldið tveggja tíma tölu um þetta, en hlífi ykkur við því.

Fósturmóðir mín, hún  Krumma mín, sem var nærri því 96 ára, sístarfandi, hress og ern fram á síðasta dag sagði einu sinni við mig: „ég skil aldrei hvaða gamla kona þetta er sem ég sé þegar ég lít í spegilinn, ég er alltaf ung stúlka inní mér“

Kannski var það vandamálið þegar ég var í atvinnuleitinni: Ég sá fríska, reynslumikla, kraftmikla konu, á besta aldri, en atvinnurekendurnir sáu  gamla konu. – Takk fyrir.

 

 

 

Deila á