Á fundi í Kótelettufélagi Íslands haldin 18.júlí 2011 sendir félagið frá sér svohljóðandi álykt!
Félagsmönnum rennur til rifja sá nánasarháttur er kemur fram í viðtali við forseta ASÍ Gylfa Arnbjörnsson, vegna hækkunar á viðmiðunar verði til sauðfjárbænda fyrir dilkakjöt. Þessi vanhugsuðu ummæli hryggja félagsmenn mjög. Forsetinn virðist gleyma því algjörlega, að um innlenda framleiðslu er að ræða og íslenskt vinnuafl. Þau ummæli Gylfa að hvetja íslenska neytendur til að sniðganga alíslenskar afurðir í hæsta gæðaflokki, bera þess merki að maðurinn er langt frá því að vera starfi sínu vaxinn og ætti því með hjálp góðra ráðgjafa, sem hann virðist hafa á launum í kippum, að íhuga stöðu sína mjög alvarlega.
Það verður að segjast eins og er að þarna tekur forsetinn klárlega afstöðu gegn eigin umbjóðendum. Er þetta boðlegt ?
Kótelettufélagið lýsir yfir fullum stuðningi við sauðfjárbændur og hvetur íslenska alþýðu til að hundsa ummæli forsetans sem eru vægast sagt á mjög lágu plani og vekja vanþóknun víða í samfélaginu.
Bændur um land allt hafa af mikilli þrautseigju og dugnaði stundað umfangs miklar kynbætur á sauðfé og lagt mikið á sig til að ná betri ræktun sauðfjár.
Þetta ber að virða, en ekki að hvetja til þess að þessar frábæru afurðir verði sniðgengnar.
Kótelettufélag Íslands.