Upp úr viðræðum milli sjómanna og útvegsmanna slitnaði á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag og hefur nýr fundur ekki verið boðaður. Viðræðuhlé var milli aðila frá þriðjudeginum 17. janúar síðastliðnum til dagsins í dag. Aðildarfélög Sjómannasambandsins notuðu hléið til að funda með sjómönnum og fara yfir stöðuna. Skilaboð sjómanna frá þeim fundum voru skýr um að samninganefndir sjómanna ættu ekki að hvika frá kröfunum um lagfæringu á olíuverðsviðmiðuninni og bætur vegna niðurfellingar sjómannaafsláttarins. Útvegsmenn töldu sig ekki geta komið til móts við sjómenn varðandi þessar kröfur og því sigldu viðræðurnar í strand. Óvissa er því um framhaldið.