“Það skýtur nú kannski skökku við að vera að afhenda reiðhjól svona á aðventunni”. Sagði Halla Rún Tryggvadóttir en það var nú samt raunin þegar íbúar Dvalarheimilisins Hvamms fengu nýstárlegt reiðhjól að gjöf.
Halla Rún og Björg Björnsdóttir sjúkraþjálfari stóðu fyrir söfnun til að fjármagna kaupin á hjólinu en um er að ræða hjól sem heitir Christania Bike og kemur frá Danmörku. Fremst á hjólinu er eins konar kerra bæði með svuntu og skyggni og þá er það með rafmótor og því ætti að vera hægt að hjóla langar leiðir þótt farþegarnir séu tveir.
Í máli Höllu rúnar kom fram að forsaga málsins sé sú að hún heyrði af þessu annars skemmtilega verkefni í slyddu og skítakulda í Húsavík eystri sumarið 2015.
„Mér þótti þetta strax virkilega áhugavert verkefni. Hingað kom svo Sesselja Traustadóttir forstýra Hjólafærni á Íslandi sem flytur inn hjólin, á vordögum á þessu ári. Hún átti fund með starfsfólki Hvamms og sjúkraþjálfunar Húsavíkur sem leiddi það af sér að leiðir okkar Bjargar lágu saman og við einhentum okkur í söfnun fyrir hjólinu. Það var nú vægast sagt skemmtileg vinna þar sem allir sem við töluðum við tóku okkur svo vel. Hver vill ekki gera eitthvað góðverk og það fyrir eldri borgara?
Það tók ekki langan tíma að safna fyrir hjólinu. Þeir sem styrktu okkur voru bæði einstaklingar og fyrirtæki í bænum og nágrenninu. Gospelkór Húsavíkur, Framsýn stéttarfélag og Starfsmannafélag Húsavíkur. Landsbankinn og Íslandsbanki lögðu okkur lið. Sömuleiðis Norðurþing og Urðarprent. Og svo flutti Samskip hjólið hingað norður fyrir okkur, okkur að kostnaðarlausu.
Þeir einstaklingar sem tóku þátt í söfnuninni voru Elísabet Sigurðardóttir, Jóel Friðbjörnsson og Sigríður Björnsdóttir, Hlöðver Stefán Þorgeirsson, Agnieszka Szczodrowska og Dýrleif Andrésdóttir.
Mig langar að þakka þeim kærlega fyrir þeirra framlög til hjólakaupanna.
Nú þegar hjólið er hingað komið þá verður næsta verkefni að virkja hjólara í bænum. En við höfum veturinn til þess. Þeir sem hér eru mega gjarnan láta það berast að öllum íbúum bæjarins sem áhuga og getu hafa býðst að gerast hjólarar. Ekki þarf að hafa einhver persónuleg tengsl við íbúa Hvamms til að geta gerst hjólari. Það má hafa samband við okkur Björgu, við skráum hjólarana.
Í mars-apríl, allt eftir snjóalögum í vor verður haldinn fundur eða eins konar námskeið með tilvonandi hjólurum. Þar förum við yfir bókunarkerfi og annað sem lítur að því að vera hjólari. Hugmyndin er að stofna hóp á fésbókinni góðu fyrir hjólara.
Verkefninu Hjólað óháð aldri fylgir ákveðið bókunarkerfi, GO heitir það og við höfum veturinn til að kynna okkur það“ Sagði Halla Rún en eftir athöfnina fór Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings í fyrstu ferðina á hjólinu og farþegar voru Viðar Vagnsson frá Hriflu og Dýrleif Andrésdóttir frá Leirhöfn. (fréttin er tekin af þeim ágæta miðli 640.is fyrir utan fyrirsögnina, myndir og myndtexta)
Stéttarfélögin á Húsavík tóku þátt í kaupum á reiðhjóli fyrir aldraðra sem afhent var á dögunum.
Hópur fólks var saman komin þegar hjóið var afhent.
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings lagði svo í hann með tvo heimilsmenn á Hvammi í fallegu vetrarveðri.