Unglingar úr Vinnuskóla Norðurþings hafa í morgun setið og hlustað á forsvarsmenn Skrifstofu stéttarfélaganna fræða þau um starfsemi stéttarfélaga og atvinnulífið í Þingeyjarsýslum. Unglingarnir stóðu sig vel og hlustuðu vel á talsmann stéttarfélaganna fara yfir þessi mikilvægu atriði. Þau voru einnig dugleg að leggja fram fyrirspurnir um vinnumarkaðinn og réttindi þeirra. Stéttarfélögin hafa átt mjög gott samstarf við Vinnuskólann um fræðslumál og upplýsingagjöf til unga fólksins sem er að stiga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.