Í gærkvöldi kl. 21:20 slitnaði upp úr kjaraviðræðunum milli Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Verkfall hjá sjómönnum hófst því kl. 23:00 í gærkvöldi.
Ástæða viðræðuslitanna er fyrst og fremst deila um mönnunarmálin, en samkvæmt kjarasamningi eiga að vera 15 menn á uppsjávarveiðiskipunum og togurunum. Á uppsjávarflotanum hafa útgerðirnar fækkað úr 15 mönnum niður í 8 sem fulltrúar sjómanna telja að sé undirmönnun á þessum skipum. SFS hafnaði kröfu sjómanna um að setja mörk á fækkun skipverja á uppsjávarveiðiskipunum. Á sumum togurum er farið að fækka í 13 menn og höfnuðu útgerðarmenn einnig kröfu sjómanna um að manna togarana eðlilega.
Sátt hafði náðst um fiskverðsmálið og nýsmíðaálagið, sem voru stóru málin ásamt mönnunarmálinu og einnig nokkur önnur smærri mál. Þar sem slitnað hefur upp úr viðræðunum verður ekki boðað til sáttafundar fyrr en eftir um viku tíma. Ljóst er því að félögin þurfa að vera á verkfallsvaktinni næstu daga. Um 30 sjómenn innan Sjómannadeildar Framsýnar eru á leiðinni í verkfall. Rétt er að taka fram að verkfallið nær ekki til sjómanna á smábátum sem fara eftir kjarasamningi Sjómannasambandsins og Landssambands smábátaeigenda.
Sjómenn innan Framsýnar á stærri bátum eru komnir í verkfall sem hófst í gærkvöldi.