Í gærkvöldi, 19. júlí, tók Framsýn þátt í fundi sem haldin var á vegum SMS Group og PCC á Bakka. Í ljósi þess að margir starfsmenn eru nýkomnir á Bakka og fjöldi starfsmanna þar er nú að nálgast hámark var ákveðið að smala saman nokkrum lykilaðilum á svæðinu og kynna svæðið fyrir nýju starfsmönnunum. Þessir aðilar voru auk PCC og SMS, Norðurþing, Völsungur, Lögreglan, Slökkviliðið, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Framsýn. Allir þessir aðilar kynntu sína starfsemi á svæðinu með aðstoð glærusýningar sem hópurinn vann saman á síðustu vikum. Það var svo Agnieszka Szczodrowska eða Aga eins og hún er jafnan kölluð sem túlkaði af stakri snilld það sem fram fór fyrir pólskumælandi gesti fundarins sem raunar var stór meirihluti viðstaddra.
Fundurinn heppnaðist með ágætum. Það var ánægjulegt að finna áhuga nýs fólks á svæðinu að taka þátt í samfélaginu og setja sitt mark á svæðið. Sérstaklega var ánægjulegt fyrir okkur starfsmenn Framsýnar að sjá starfsmenn hafa mikinn áhuga á sínum réttindum sem launþegar en mikil aðsókn var í básinn sem Framsýn hafði fyrir sitt kynningarefni að fundi loknum.