Fundað um lausn mála

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum halda uppi öflugu vinnustaðaeftirliti sem skilað hefur góðum árangri ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Almennt er ástandið því gott á félagssvæðinu með nokkrum undantekningum. Dæmi er um að bæði innlend og eins erlend fyrirtæki hafi ætlað sér að greiða laun undir lágmarkslaunum á Íslandi. Framsýn hefur verið í sambandi við tvö fyrirtæki í vikunni sem eiga í hlut. Búið er að ná samkomulagi við annað fyrirtækið sem mun virða kjarasamninga og lög á vinnumarkaði. Viðræður standa yfir við hitt fyrirtækið um að laga kjör svo ekki komi til þess að Framsýn kæri fyrirtækið til hlutaðeigandi stjórnsýslustofnana. Góðar líkur eru á að það mál klárist á allra næstu dögum, jafnvel um helgina.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Dæmi eru um að menn fái um kr. 160.000 á mánuði í föst laun eins og þessi launaseðill ber með sér á sama tíma og lágmarkslaun á Íslandi eru um kr. 260.000,-. Það sem er alvarlegra í þessu tiltekna máli er að starfsmenn sem eiga í hlut vinna auk þess töluverða yfirvinnu sem skilar sér ekki inn í launin. Samtals er þessi launaseðill upp á kr. 185.000 með orlofi og ökutækjastyrk vegna kostnaðar sem hann varð fyrir.

Deila á