Fulltrúar Framsýnar hafa síðustu daga fundað með Samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga um nýjan kjarasamning. Viðræðurnar hafa gengið vel. Í gær var klárað að fara yfir öll efnisatriði samningsins og kröfugerð Framsýnar. Fallist var á að taka þær flestar inn í samninginn. Þá urðu umræður um nýja launatöflu sem sveitarfélögin hafa boðið. Framsýn hefur gert alvarlegar athugsemdir við hana er varðar sérstaklega reynda og eldri starfsmenn sveitarfélaga sem koma mjög illa út úr þeirri töflu sem sveitarfélögin hafa boðið. Til að leysa málið lögðu fulltrúar Framsýnar fram ákveðna tillögu á fundinum í gær sem sveitarfélögin samþykktu að skoða og svara eftir helgina. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður næsta þriðjudag.