Framsýn hefur óskað eftir fundi næsta mánudag með sveitarstjórum á félagssvæðinu til að fara yfir gang kjaraviðræðna við Samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga en sambandið sér um samningagerð fyrir sveitarfélögin. Þá hefur Framsýn einnig boðað til félagsfundar meðal starfsmanna sveitarfélaganna kl. 18:00 næstkomandi mánudag í fundarsal félagsins. Þar verður gerð grein fyrir stöðu mála og næstu skref ákveðin.
Samningar hafa nú verið lausir frá 1. desember 2010 og hafa viðræður um nýjan kjarasamning staðið yfir með hléum frá áramótum. Deilur standa milli aðila um launatöflu sem sveitarfélögin hafa boðið og leggja ofuráherslu á að ná fram. Fjölmennasti hópur starfsmanna innan Framsýnar sem starfar hjá sveitarfélögunum starfa í leik- og grunnskólum auk þess að starfa á Dvalarheimilinu Hvammi. Nýja launataflan væri að færa þessum hópum starfsmanna kr. 20.158 á sama samningstíma og launafólk á almennum markaði væri að fá kr. 34.000 (31. jan. 2014). Sveitarfélögin leggja áherslu á að semja til loka september 2014 og þá væru þessir starfsmenn búnir að fá tæpar 27 þúsund kr. í hækkun. Þá vantar um 84 þúsund krónur á ársgrundvelli upp á laun þessara starfsmanna, miðað við þær launahækkanir sem almennt hefur verið samið um í samfélaginu. Það er ekki bara að Framsýn hafi hafnað þessum hugmyndum heldur hafa önnur stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins hafnað þeim einnig. Sama á við um Kjöl sem er stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu innan BSRB. Þá er mjög athyglisvert að á sama tíma og grunnatvinnuleysisbætur hækka um 12.000 krónur til samræmis við taxtahækkanir kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum er reyndum starfsmönnum á leikskólum boðin um 8.000 króna upphafshækkun á mánuði.
Í samtali við formann félagsins, Aðalstein Árna í kvöld, sagðist hann mjög undrandi á tilboði Samninganefndar sveitarfélaga sem kæmi mjög illa við reynda starfsmenn, sérstaklega konur í umönnunarstörfum. Það væri ólíðandi. Hann sagði mikilvægt að starfsmenn sveitarfélaga fjölmenni á félagsfundinn næsta mánudag. Þá sagðist hann hafa haft samband suður í dag og farið þess á leit við Ríkissáttasemjara að hann boði deilendur til fundar næsta þriðjudag. Aðalsteinn sagðist reikna með að það gengi eftir. Þá væri fundurinn með sveitarstjórunum á svæðinu á mánudag einnig mikilvægur.