Um áramótin hækkuðu laun bankastjóra Landsbankans okkar um 41% eða um ríflega hálfa milljón á mánuði. Þetta var ákvörðun kjararáðs sem byggði m.a. á því að launin hefðu ekki verið í samræmi við “ábyrgð, starfsskyldur, vinnuframlag og árangur í starfi.”
Kjararáð samþykkti einnig að hækka laun dómara landsins um þetta á bilinu 37,8 til 48%. Þetta er yfirleitt hækkun upp á 4-600 þúsund á mánuði eða svo.
Þriðju gleðifréttirnar sem bárust inn á borð launafólks voru tíðindin af því að stjórnarmenn í einhverju samtryggingafélagi hefðu ákveðið að hækka eigin laun um 75%. Þetta var reyndar ákvörðun sem tekin hafði verið fyrr á árinu en frestað, þar sem viðkvæmar kjaradeilur voru þá í gangi og mikil og langvinn átök um einhverja tíuþúsundkalla.
Með leyfi að spyrja. Er þetta fólk klikkað? Í hvaða samfélagi býr þetta pakk? Eru kjararáð og aðrir sem að þessu standa eða leggja blessun sína yfir óhæfuverkin, viljandi að efna til blóðugra átaka og jafnvel mannvíga á landinu? Halda menn að það sé hægt að tuða um það vikum saman að fátækt fólk verði bara að sýna samfélagslega ábyrgð og halda sig innan 300 þúsund króna markið í launakröfum, því annars leggi það efnahagslífið í rúst með óbilgjörnum kröfum sínum – og kasta svo fram í árslok þessum níðþunga stríðshanska, þessari rennblautu tusku framan í óþvegið smettið á verkalýðnum?
Af hverju gera menn svona? Hver er samfélagsleg vitund þessa fólks og skilningur á gangverki þjóðfélagsins? Vega “ábyrgð, starfsskyldur, vinnuframlag og árangur í starfi” þyngra hjá bankastjórum og dómurum en til dæmis hjúkrunarfræðingum? Og hver er raunverulegu árangur af starfi kjararáðs, ef það með ákvörðunum sínum rústar grunni allra nýgerðra kjarasamninga í landinu og hleypir öllu í bál og brand á ný? Verða laun kjararáðsmanna þá ekki lækkuð snarlega í hlutfalli við það tjón sem ráðið hefur unnið með sínum vanhugsðu, ef ekki beinlínis vitfirringslegu ákvörðunum?
Það er oft erfitt að skilja sumt fólk. Og kannski er það gagnkvæmt. Er bilið milli ríkra og fátækra, yfirstéttar og undirmálslýðs orðið svo breitt, gjáin svo djúp, að þar kemst enginn skilningsvottur á milli? Er það staðan í dag? Er það staðreyndin sem við verðum að takast á við á þessu ári, 2016?
Bara svona til að byrja árið á léttu og bjartsýnu nótunum!
Og það held ég nú. JS
Jóhannes Sigurjónsson skrifar áhugaverðan leiðara í Skarp í dag. Við fengum leyfi til að birta hann hér á síðunni.