Útför Hauks Tryggvasonar fór fram frá Húsavíkurkirkju í dag. Það voru félagar hans í Framsýn sem báru kistuna úr kirkjunni. Þá var fáni Framsýnar einnig hafður í kirkjunni að ósk Hauks sem starfaði í trúnaðarmannaráði auk þess að vera í stjórn sjúkrasjóðs félagsins. Haukur var góður drengur og starfaði vel fyrir Framsýn, hans verður sárt saknað. Félagsmenn Framsýnar votta Sigrúnu Kjartansdóttur og fjölskyldu innilegrar samúðar. Sjá minningargrein eftir formann Framsýnar, Aðalstein Á. Baldursson.
Með sorg í hjarta kveð ég vin minn og félaga Hauk Tryggvason sem jarðsunginn var frá Húsavíkurkirkju í dag. Við Haukur höfum lengi þekkst eða nánast frá því að hann fluttist úr Eyjafirði með Sigrúnu sinni til Húsavíkur fyrir nokkrum áratugum. Ungu hjónin stofnuðu með sér kærleiksríkt heimili á Húsavík sem ljómaði alla tíð af mikilli ást og umhyggju. Þeim var mjög umhugað um hvort annað, börnin og barnabörnin. Hreiðrið sem þau bjuggu sér til á Þórðarstöðum var þeim til mikils sóma. Í veikindum Hauks var eftirtektarvert að fylgjast með því hvernig fjölskyldan stóð þétt saman í baráttunni með Sigrúnu Kjartansdóttur eiginkonu Hauks í fararbroddi.
Þrátt fyrir að samskipti okkar Hauks hafi ekki verið mikil framan af áttu þau eftir að aukast verulega þar sem við félagarnir höfðum báðir brennandi áhuga á verkalýðsmálum og velferð svæðisins. Áður en Haukur flutti til Húsavíkur starfaði hann hjá Sambandsverksmiðjunum á Akureyri og um tíma sem trúnaðarmaður starfsmanna. Þetta rifjaði hann upp fyrir mér þegar við sátum saman góða stund heima hjá honum og fórum yfir lífið og tilveruna. Ég bað hann einnig um að líta yfir drög af handriti sem ég tók með mér af blaði Framsýnar sem félagið gaf út í tilefni af 100 ára afmæli stéttarbaráttu í Þingeyjarsýslum í vor. Honum leist vel á blaðið og hvatti til þess að félagið héldi áfram á sömu braut til framtíðar. Hann minntist einnig á það, hvað það hefði verið ánægjulegt að geta tekið þátt í hátíðarhöldunum 1. maí þrátt fyrir að veikindin hefðu verið farin að taka sinn toll. Dagskráin hefði verið glæsileg og forsetinn Ólafur Ragnar gefið sér tíma til að spjalla við hann. Honum þótti greinilega vænt um það. Hann tjáði mér einnig að hann hefði átt erfitt með að taka þátt í stefnumótunarfundi Framsýnar sem haldinn var í janúar um framtíð félagsins en ekki viljað missa af honum. Sársaukin hefði verið það mikill að hann hefði ekki getað setið. Þess vegna hefði hann orðið að standa. Þannig hefði hann viljað leggja sitt að mörkum til að móta starfsemi félagsins til framtíðar. Þetta vissum við ekki sem skipulögðum fundinn fyrr en nú þegar Haukur greinir frá þessu. Það var aldrei ætlunin hjá honum að gefast upp, hann sá framtíðna fyrir sér og vildi taka þátt í að móta hana þrátt fyrir veikindin. Því miður hefur enn ekki tekist að lækna alla sjúkdóma þannig að við sitjum fátækari eftir nú þegar Haukur er horfinn á braut.
Haukur var mjög virkur í starfi stéttarfélagsins Framsýnar fram á síðasta dag enda þótti honum bæði gaman og gefandi að starfa fyrir félagið, honum þótti vænt um félagið sitt. Undanfarinn ár hefur Haukur setið í trúnaðarmannaráði félagsins og mætt á flesta fundi sem félagið hefur boðað til. Honum hefur einnig verið treyst fyrir því að sitja í stjórn Sjúkrasjóðs félagsins sem er mjög krefjandi starf. Í stjórnina veljast aðeins þeir sem njóta mikils trausts innan félagsins enda oftast verið að fjalla um viðkvæm og erfið mál er snerta félagsmenn. Haukur fór einnig nokkrum sinnum sem fulltrúi Framsýnar á fundi sem haldnir hafa verið af heildarsamtökum verkafólks. Við sem fórum með honum í þessar ferðir viljum þakka góðum ferðafélaga fyrir gefandi og frábærar stundir, ekki síst þegar við fórum saman á þing Starfsgreinasambandsins á Selfossi 2009. Þá var Noregsferðin fyrir tveimur árum einnig ógleymanleg en þá fór félagi Haukur á kostum. Það er þegar við heimsóttum verkalýðshreyfinguna í Noregi. Haukur komst ekki með okkur í síðustu ferðina til Færeyja vegna veikinda en okkur var hugsað til hans og færðum við honum táknræna gjöf þegar við komum til baka. Þrátt fyrir að Haukur fari ekki með okkur í fleiri ferðir verður hann áfram með okkur í anda. Góðir drengir eins og Haukur gleymast aldrei.
Ég vil fyrir hönd félagsmanna Framsýnar þakka Hauki fyrir vel unnin störf í þágu verkafólks í Þingeyjarsýslum um leið og ég votta eiginkonu hans Sigrúnu Kjartansdóttur og fjölskyldu okkar innilegustu samúð. Megi guð hjálpa ykkur í gegnum sorgina. Minning um góðan mann mun lifa áfram.
Aðalsteinn Á. Baldursson