Í dag ætlum við að heiðra tvo heiðursmenn sem markað hafa djúp spor í okkar samfélag með dugnaði og eljusemi. Það eru þeir Óskar Karlsson og Kristbjörn Þór Árnason. Þetta sagði Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar- stéttarfélags þegar hann tilkynnti í dag hverja Sjómannadeild félagsins hefði ákveðið að heiðra í ár fyrir framúrskarandi sjómennsku. Jafnframt óskaði hann sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. Athöfnin fór fram í Sjómannadagskaffi Slysavarnardeildar kvenna á Húsavík.
Aðalsteinn sagði þetta um þá Óskar Karlsson og Kristbjörn Þór Árnason.
Óskar Karlsson:
Óskar Karlsson fæddist á Húsavík 27. nóvember 1944 sonur hjónanna Karls Óskars Aðalsteinssonar og Heru Sigurgeirsdóttur. Óskar er sannur húsvíkingur og hefur búið á staðnum fagra við Skjálfanda frá fæðingu. Óskar er giftur Ósk Þorkelsdóttur og á með henni þrjú uppkomin börn.
Óskar fór kornungur til sumardvalar í sveit hjá Hermanni Aðalsteinssyni frænda sínum á Hóli á Tjörnesi. Sá tími reyndist þó ekki langur, þar sem Karl faðir hans kallaði hann aftur heim, þar sem háseta vantaði á bát. Aðeins 11 ára gamall var hann kominn um borð í trilluna Óskar TH 234 sem gerð var út á kolanet frá Húsavík. Faðir Óskars átti bátinn.
Eftir það stundaði Óskar sjósókn með föður sínum nokkur sumur með námi. Það urðu allir að hjálpast að og engin gat skorast undan verkum yfir hábjargræðistímann þrátt fyrir ungan aldur manna. Móðir Óskars, Hera Sigurgeirsdóttir, var einnig góð fyrirmynd því hún sá um beitninguna í landi meðan eiginmaðurinn sótti sjóinn. Það gerði hún samhliða barnauppeldinu og öðrum heimilisstörfum.
Sjórinn heillaði Óskar þrátt fyrir að það hafi blundað í honum að gerast bóndi sælla minninga frá Hóli á Tjörnesi á hans æskuárum.
Bræðurnir, Óskar og Aðalsteinn og faðir þeirra stunduðu lengi sjósókn og stofnuðu saman með sér útgerð um Sæborgina ÞH árið 1968. Síðan þá hefur Óskar verið í útgerð, fyrst í samstarfi með þeim feðgum og síðar með fjölskyldunni eða frá árinu 1990.
Óskar og fjölskylda hafa gert út Dalaröstina, Guðrúnu Björgu og Heru ÞH 60 sem þau gera út um þessar mundir. Óskar, Aðalsteinn og faðir þeirra Karl Óskar gerðu út þrjá báta undir nafninu Sæborg ÞH. Síðar gerðu þeir bræður út Siglunesið frá Húsavík, eða til ársins 1988 þegar þeir hættu samstarfi um útgerð.
Fjölskylda Óskars Karlssonar er ekki hætt, þau eru í útgerð, hafa opnað matsölustað við höfnina sem gengur vel og þá hefur Óskar látið gamlan draum rætast og á nú orðið nokkrar kindur sem hann hefur gaman af í góðum félagsskap.
Starfsferill Óskars er orðinn langur og hans framlag til útgerðarsögu Húsavíkur er ómetanlegt. Því er Óskar vel að því kominn að vera heiðraður hér í dag sem er smá þakklætisvottur fyrir allt það sem hann og hans fjölskylda hefur lagt að mörkum fyrir samfélagið okkar hér á Húsavík.
Kristbjörn Þór Árnason:
Bóbi í Ásgarði er líkt og Óskar mikill húsvíkingur enda búið allt sitt líf á Húsavík. Bóbi eða Kristbjörn Þór Árnason er sonur hjónanna Árna Kristjánssonar og Kristínar Sigurbjörnsdóttur frá Ásgarði. Kristbjörn fæddist 18. ágúst 1937 á Húsavík. Eiginkona hans er Birna Sigurbjörnsdóttir og eiga þau tvö uppkominn börn.
Bóbi byrjaði aðeins 16 ára gamall til sjós. Það var með Maríusi Héðinssyni skipstjóra á Stefáni Þór frá Húsavík. Síðan lá leið hans í Stýrimannaskólann þar sem hann náði sér í tilskilin réttindi enda átti sjómannsstarfið vel við hann. Hann gerðist síðan stýrimaður á Helga Fló ÞH í lok sjötta áratugarins. Það var síðan 1963 sem hann réð sig sem skipstjóra á Báruna KE frá Keflavík sem var í eigu Einars ríka eða Einars Sigurðssonar útgerðarmanns. Síðan þá hefur hann verið skipstjóri hjá sömu útgerð á skipum eins og Engey RE, Akurey RE, Örfirisey RE, og Sigurði VE.
Bóbi fór sína síðustu veiðiferð fyrir útgerðina síðasta sumar á Sigurði VE eftir langa og farsæla sjómennsku. Hann hefur alla tíð verið mikill veiðimaður og fiskað vel um ævina. Það hefur því verið mjög eftirsóknarvert fyrir sjómenn að munstra sig á skip með Bóba.
Ekki skemmir fyrir að hann hefur verið mjög duglegur að taka með sér menn frá Húsavík enda mikið um afburða sjómenn hér um slóðir. Dæmi eru um að menn hafi verið með honum til sjós í tugi ára.
Stundum bar svo við að skip væru seld undan Bóba. Oftar en ekki var hann seldur með skipum Einars ríka, tímabundið, meðan beðið var eftir því að hann tæki við nýju skipi í eigu sömu útgerðar. Sagan segir að betur hafi gengið að selja skipin ef Bóbi fylgdi með í kaupunum sem skipstjóri, sem er góður vitnisburður um störf Kristbjörns Þórs Árnasonar.
Það er ekki svo að Bóbi sé alveg hættur til sjós því hann á trillu Lundey ÞH 350 sem hann gerir út frá Húsavík.
Afrek Bóba hafa vakið mikla athygli bæði hér innanlands og eins erlendis. Sem dæmi má nefna að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdi hann fálkaorðunni þann 17. júní 2010 fyrir vel unninn störf í þágu íslenskrar þjóðar. Þá fékk hann einnig alþjóðleg verðlaun á Sjávarútvegssýningunni 2008 fyrir afburða skipstjórn.
Það er því mikill heiður fyrir okkur að fá að næla enn einni orðunni í brjóstið á Bóba sem þakklætisvott fyrir hans frábæru störf í þágu samfélagsins. Við erum og verðum fiskimannaþjóð og því þurfum við áfram sem hingað til að treysta á aflamenn eins og Kristbjörn um ókomna tíð. Það er því með mikilli ánægju sem við heiðrum Bóba eða Kristbjörn Þór Árnason hér í dag ásamt Óskari Karlssyni.
Birna, Bóbi, Óskar og Ósk við afhendinguna í dag.
Tveir góðir skipstjórar. Jóhann Gunnarsson óskar hér Bóba til hamingju með viðurkenninguna.
Óskar tók líka á móti heillaóskum. Hér er Védís Bjarnadóttir að óska Óskari til hamingju.