Þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) kallar eftir nýjum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga þar sem allir axli sína ábyrgð. Margir hópar hafi farið fram síðustu misseri og reynt að rétta sinn hlut, óháð því hvaða áhrif það hafi á aðra launahópa eða hagkerfið. Á því tapa allir, segir í ályktun þingsins. 29. þing LÍV var haldið dagana 16. – 17. október á Akureyri og sátu það 79 fulltrúar aðildarfélaga sambandsins.
Á þinginu var jafnframt samþykkt stuðningsyfirlýsing við kjarabaráttu starfsfólks Rio Tinto í Straumsvík sem hefur staðið mánuðum saman án þess að nokkur lausn sé í sjónmáli. Þá var einnig samþykkt ályktun um starfsmenntamál þar sem áhersla er lögð á mikilvægi raunfærnimats. Þar er hvatt til þess að fyrir 1.október á næsta ári liggi fyrir með hvaða hætti greitt verði fyrir hæfni sem metin er í starfi, eins og stefnt er að í bókun með síðustu kjarasamningum um mat á námi til launa.
Þá samþykktu þingfulltrúar ályktun um heilbrigðis- og húsnæðismál þar sem stjórnvöld voru m.a. hvött til að hverfa af braut aukinnar kostnaðarþátttöku almennings í læknis- og lyfjakostnaði. Ályktanir þingsins eru birtar í heild sinni hér að neðan.
Stjórn LÍV var endurkjörin á þinginu en í henni sitja Guðbrandur Einarsson , formaður LÍV, Ólafía B. Rafnsdóttir VR, Páll Örn Líndal VR, Eiður Stefánsson FVSA, Kristín María Björnsdóttir VR, Gils Einarsson VMS og Benóný Valur Jakobsson VR. Varamenn eru Svanhildur Ó. Þórsteinsdóttir VR, Elva Hrönn Hjartardóttir VR, Anna María Elíasdóttir FVSA, Bjarni Daníelsson VR, Hjörtur Geirmundsson Vmf. Skagafjarðar, Júnía Þorkelsdóttir VR og Bryndís Kjartansdóttir VS.
Ályktun um efnahags- og kjaramál
29. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna áréttar mikilvægi þess að taka upp ný vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi og að horft sé til þess hvernig við getum byggt upp kaupmátt með raunverulegum og varanlegum verðmætum. Ósamstaða, óróleiki og átök hafa einkennt vinnumarkaðinn frá því að ríkisvaldið í samningum við ákveðna hópa hafnaði þeirri launastefnu sem samið var um á almennum vinnumarkaði í árslok 2013.
Margir hópar hafa farið fram síðustu misseri og reynt að rétta sinn hlut, óháð því hvaða áhrif slíkt hefur á aðra hópa eða hagkerfið í heild sinni. Einnig hafði úrskurður gerðardóms neikvæð áhrif á þróun mála. Niðurstaðan er sú að horfur eru á vaxandi verðbólgu, veikingu íslensku krónunnar og hækkandi vöxtum. Á því munu allir tapa.
Við getum margt lært af öðrum Norðurlandaþjóðum, sem tekist hefur að byggja upp kaupmátt í hægum en öruggum skrefum við meiri stöðugleika og lægri vexti en við eigum að venjast. Þar er lögð meiri áhersla á ábyrgð, aga og vandaðan undirbúning til að tryggja sem besta útkomu fyrir allt launafólk.
29. þing LÍV telur mikilvægt að vinnumarkaðurinn í heild sinni tileinki sér sömu vinnubrögð og liggja að baki hinu norræna vinnumarkaðsmódeli. Fyrsta skrefið í þá átt er að tryggja sem best jafnræði milli hópa í launaþróun á komandi misserum, þar sem litið verði til allra þátta þ.m.t. lífeyrisréttinda. Til þess að það gangi eftir verða allir hópar að axla ábyrgð á breyttum vinnubrögðum.
Þannig getum við í sameiningu náð hámarksárangri við að byggja upp kaupmátt og efla lífskjör.
Ályktun um heilbrigðis- og húsnæðismál
29. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna hvetur stjórnvöld til að hverfa af braut aukinnar kostnaðarþátttöku almennings í læknis- og lyfjakostnaði. Hluti almennra lífskjara felst í góðu aðgengi að fullkominni heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Slíkt aðgengi er best tryggt með því að kostnaður við reksturinn sé greiddur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Jafnframt kallar þingið eftir raunhæfri húsnæðisstefnu og aðgerða af hálfu stjórnvalda enda gera aðstæður á húsnæðismarkaði ungu fólki nánast ókleyft að tryggja sér húsnæði við hæfi á viðráðanlegum kjörum.
Ályktun um stuðning við kjarabaráttu starfsfólks Rio Tinto
Þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna lýsir fullum stuðningi við kjarabaráttu starfsfólks Rio Tinto í Straumsvík.
Starfsmenn fyrirtækisins heyja nú harða baráttu fyrir því að kjarasamningur milli aðila verði endurnýjaður en hann rann út fyrir tæpum tíu mánuðum. Fyrirtækið krefst þess að fá frekari heimildir til að auka verktakastarfsemi á vinnusvæði Ísal í Straumsvík á kostnað hefðbundinna launamanna. Þessi krafa er í samræmi við það sem Rio Tinto er að gera á alþjóðavísu og virðist markmiðið vera að svipta launamenn kjarasamningsbundnum réttindum. Slíkt er með öllu óásættanlegt og í andstöðu við grundvallarhugsjónir verkalýðshreyfingarinnar.
Þing LÍV skorar á Rio Tinto að ljúka gerð kjarasamnings sem allra fyrst, án þess að störf almennra starfsmanna verði sett í verktöku.
Ályktun um starfsmenntamál
Félagsmenn í Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) sinna fjölbreyttum störfum á íslenskum vinnumarkaði fleirum en aðeins þeim er snúa að verslun.
Hafa þarf hagsmuni þessa fjölbreytta hóps í huga þegar kemur að vali á leiðum í starfs- og símenntun.
LÍV vill þó að þessu sinni einkum minna á mikilvægi þess að raunfærnimat komist í framkvæmd og verði vel kynnt almenningi. Raunfærnimatið verði í reynd virk leið til að bæta kjör og starfsfyllingu, öllum til hagsbóta; launafólki og atvinnurekendum sem skilar sér að lokum til viðskiptavina.
LÍV telur brýnt að samningsaðilar fylgi af fullum þunga eftir bókun í síðustu kjarasamningum um mat á námi til launa.
LÍV hvetur nefnd samningsaðila til skilvirkni þannig að fyrir 1. október 2016 liggi fyrir með hvaða hætti verður greitt fyrir hæfni sem metin er í starfi eins og stefnt er að í bókuninni. Hvatt er til að áfram verði unnið að hæfnigreiningu allra starfa.
LÍV hvetur jafnframt félagsmenn og atvinnurekendur til að huga sérstaklega að raunfærnimati einstaklinga með langan starfsaldur og mikla reynslu af vinnumarkaði – því að þekking og reynsla eru dýrmætir þættir sem meta þarf að verðleikum.
29. þing LÍV áréttar að allir eigi raunhæfan kost á starfsnámi, óháð aldri, uppruna og búsetu.