Verkalýðsforinginn Sonja J. Jógvansdóttir var kjörin á Færeyska löggjafaþingið í kosningunum sem fram fóru um síðustu helgi. Þess má geta að Sonja er fyrsti samkynhneigði þingmaður Færeyja. Hér má lesa viðtal við hana sem DV tók þegar úrslitin voru klár:
Sonja J. Jógvansdóttir var í kjörin fyrsti (yfirlýsti) samkynhneigði þingmaðurinn í Færeyjum. Sonja er fædd árið 1977 og hefur látið að sér kveða í réttindabaráttu samkynhneigðra. Sonja segir í viðtali við dv.is að færeyskt samfélag sé miklu opnara en margir geri sér grein fyrir og miklu jákvæðara í garð samkynhneigðra en lög landsins gefi til kynna.
Spurð um feril sinn segist Sonja lengi hafa unnið fyrir Samband verkalýðsfélaga í Færeyjum og komið að samningum milli starfsfólks í sjávarútvegi og vinnuveitenda þess. Hún hefur verið virk í sambandinu í um 12 ár. En hefur hún verið virk í réttindabaráttu samkynhneigðra í Færeyjum?
„Já, við stofnuðum LGB-félagið í Færeyjum, sem er félag hinsegin fólks í landinu, árið 2011.“
Og hvernig hefur félaginu verið tekið?
„Því hefur verið mjög vel tekið og Gleðigangan í Færeyjum hefur verið mjög vel sótt undanfarin ár. Hún hefur verið haldin fjórum sinnum og milli 10 og 15% þjóðarinnar tekur þátt í henni.“
Hefur þá viðhorf til samkynhneigðra breyst í Færeyjum?
„Færeyskt samfélag er miklu opnara en lögin okkar gefa til kynna og miklu opnara en margir halda. Það er bara minnihluti sem berst gegn réttindum hinsegin fólks. Samkvæmt skoðanakönnunum eru 68% færeysku þjóðarinnar hlynnt því að breyta hjúskaparlögunum og leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Meirihluti fólks alls staðar á eyjunum styður okkur. Þetta gildir um fólk í öllum aldurshópum og öllum þjóðfélagsstöðum.“
Hafa orðið einhverjar lagabreytingar hinsegin fólki í hag?
„Það var reynt að breyta hjúskaparlögunum á síðasta ári en frumvarpið féll í þinginu. Ég hef hins vegar mikla trú á að þetta frumvarp fari í gegn á þessu þingi. Nýja þingið mun breyta þessu.“
Sonja var kjörin á þing fyrir flokk sósíaldemókrata. Hún telur að hún hafi notið starfa sinna í þágu samkynhneigðra en einnig hafi margir kosið hana vegna starfa hennar fyrir verkalýðshreyfinguna. Auk málefna samkynhneigðra setur Sonja aukinn félagslegan jöfnuð á oddinn og vill að meiri fjármunir renni frá sjávarútveginum í velferðarkerfið í Færeyjum.
„Færeyjar eru mjög ríkt samfélag en hér þyrfti að dreifa auðnum jafnar,“ segir hún.
Persónukjör tíðkast í Færeyjum og geta kjósendur valið um að kjósa einstaklinga á framboðslistum eða listabókstaf flokka.
Sonja og Aðalsteinn formaður Framsýnar eru góðir og miklir vinir enda bæði starfað að verkalýðsmálum á Íslandi og í samnorrænum verkefnum. Þau voru bæði heiðursgestir á afmælisfagnaði Sjómannasambands Færeyja sem fagnaði 100 ára afmæli félagsins með veglegri veislu í Þórshöfn. Þá hefur Sonja komið til Húsavíkur til að kynna sér starfsemi Framsýnar.