Síðasta fimmtudag var haldinn félagsfundur um kjaramál á vegum Þingiðnar. Fundurinn fór fram í fundarsal stéttarfélaganna og hófst kl. 20:00. Gestur fundarins var Þorbjörn Guðmundsson frá Samiðn. Jónas Kristjánsson formaður bauð fundarmenn velkomna til fundarins, sérstaklega gest fundarins, Þorbjörn Guðmundsson sem hingað væri kominn til að gera grein fyrir nýgerðum kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem væri í atkvæðagreiðslu. Þorbjörn fór yfir aðdragandann að síðustu kjarasamningum, sagði viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins hafa verið erfiðar og greindi frá niðurstöðum eftir harðar viðræður þar sem verkfallsvopninu var hótað. Hann taldi iðnaðarmenn geta verið nokkuð ánægða með samninginn. Skráðir kauptaxtar iðnaðarmanna hækkuðu töluvert. Hins vegar gerði hann athugasemdir við launaþróunartrygginguna sem hann taldi ruglingslega og kæmi misjafnlega út fyrir iðnaðarmenn sem væru ekki á töxtum. Fundarmenn voru duglegir að leggja fram fyrirspurnir til Þorbjörns. Ekki var annað að heyra en að menn væru nokkuð ánægðir með niðurstöðuna. Í máli Þorbjörns kom fram að menn hefðu ákveðnar áhyggjur af þátttökuleysi í atkvæðagreiðslunni um samninginn sem stendur yfir um þessar mundir. Um er að ræða rafræna atkvæðagreiðslu meðal aðildarfélaga Samiðnar sem lýkur í næstu viku. Rétt er að nota tækifærið og skora á félagsmenn Þingiðnar að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Í lok fundar urðu töluverðar umræður um uppbygginguna sem tengist framkvæmdum á Bakka. Ljóst er að mikil uppbygging er framundan á svæðinu þar sem iðnaðarmenn munu verða áberandi.