„Það er mikill áfangi og ánægjuefni að endurskoðun starfsmatsins sé lokið enda hefur þessi vinna staðið yfir í langan tíma. Mestu skiptir að hún skilar yfirgnæfandi meirihluta okkar félagsmanna hækkun launa en hún er að jafnaði um 3,3%,“ segir Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar – stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, um endurskoðun starfsmatskerfis sveitarfélaganna sem nú liggur fyrir. Breytingarnar þýða að laun fjölmargra félagsmanna aðildarfélaga BSRB sem semja við sveitarfélögin muni hækka samkvæmt endurskoðuðu starfsmatskerfi.
Endurskoðun starfsmatsins tímabær
Starfsmatskerfið er samstarfsverkefni sveitar- og stéttarfélaga og um það samið í kjarasamningum en kerfið er að breskri fyrirmynd. Kerfið var innleitt hér á landi árið 2002 en hefur síðan ekki verið uppfært til samræmis við þróun þess í Bretlandi. Sérstök Verkefnastofa starfsmats var sett á laggirnar af Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að vinna tillögur að breytingum á kerfinu og fól endurskoðunin meðal annars í sér breytingar á spurningakerfi, þrepa- og þáttaskilgreiningum og túlkun einstakra þátta kerfisins. Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands Íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess vann síðan úr tillögunum og tók á grundvelli þeirra og upplýsinga frá sveitarfélögum um innstak starfa ákvörðun um breytingar á mati einstakra starfa. Í þessu fólst að leitað var eftir starfslýsingum frá öllum sveitarfélögunum og kom í þessari vinnu skýrt í ljós að gerðar eru meiri kröfur en áður um gæði þjónustu.
Launabreytingar afturvirkar
Endurskoðun starfsmatskerfisins er víðtæk, sem best sést af því að hún nær til um 700 starfsheita hjá öllum sveitarfélögum landsins. Eins og áður segir er hækkun í launum að meðaltali 3,5% og því eru dæmi um starfsmenn sem eru að fá talsvert meiri hækkun í gegnum endurskoðunina. Störfin voru metin út frá samtals þrettán þáttum en þrír þeirra hafa mest áhrif á stiganiðurstöðu starfanna, þ.e. ábyrgð á starfsfólki, hugrænar kröfur starfa og líkamleg færni.
Í örfáum tilvikum eru dæmi um lækkun í þessari kerfisbundnu endurskoðun en í þeim tilvikum heldur viðkomandi starfsmaður sínum launum óbreyttum en nýir starfsmann taka laun samkvæmt gildandi starfsmati. Með öðrum orðum lækkar enginn starfsmaður í launum vegna þessara breytinga.
Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda sendir nú hverju og einu sveitarfélagi í landinu og viðkomandi stéttarfélagi endurskoðað starfsmat með leiðbeiningum um framkvæmd. Miðað er við að breyting á launaröðun starfsmanna samkvæmt nýju mati komi til framkvæmda 1. ágúst, en þó ekki síðar en 1. september en endurskoðunin gildir frá 1. maí 2014, samkvæmt launatöflu II í gildandi kjarasamningi. Sveitarfélögin hafa svigrúm til 1. október næstkomandi til að framkvæma þessa afturvirku launabreytingu.
Unnið er að því að birta niðurstöður stiganiðurstöður starfa og tengingu þeirra við launaflokka.
Félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur fá nýja röðun í launatöflu samkvæmt starfsmati sem skilar um 3,3% meðalhækkun launa.