Í dag föstudaginn 19. júní 2015 minnumst við þess að að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur 40 ára og eldri öðluðust kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þann dag var stigið stórt skref í jafnréttismálum hér á landi og lögin miðuðust ekki eingöngu við konur. Þau giltu einnig um alþýðu fólks á Íslandi, vinnumenn og eignalausir karlmenn öðluðust með þeim hinn sama rétt.
Framsýn stéttarfélag óskar Þingeyingum og landsmönnum öllum til hamingju á þessum tímamótum í jafnréttisbaráttunni.
Leiðin að jafnrétti er eilífðarverkefni.
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Baráttan hafði staðið frá árinu 1885 þó fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna hafi ekki komið fram fyrr en árið 1895.
Íslenskar konur fengu fyrst takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakosninga árið 1882 sem var víkkaður út árið 1908 og varð kosningaréttur kynjanna til sveitastjórna þá jafn. Árið 1895 stóð Hið íslenska kvenfélag fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings almenns kosningaréttar kvenna. Um 2.348 skrifuðu undir. Árið 1907 hóf Hið íslenska kvenfélag undirskrifasöfnun á ný og skrifuðu 11.381 kona undir, úr nær öllum hreppum landsins, þar af 1.956 úr Reykjavík. Árið 1907 töldust konur 15 ára og eldri vera 28.640 talsins þannig að ljóst er að víðtækur stuðningur fyrir kosningarétti hefur verið meðal kvenna. Árið 1911 samþykkti Alþingi frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum kosningarétti karla og kvenna til Alþingis en dönsk stjórnvöld vildu ekki samþykkja það fremur en önnur frumvörp um breytingar á stjórnskipun Íslands þetta ár.
Árið 1913 samþykkti Alþingi nýtt frumvarp um kosningarétt kvenna og vinnumanna en þá var sett inn ákvæði um 40 ára aldurstakmark sem átti svo að lækka smátt og smátt og mun það hafa verið vegna þess að þingmenn töldu að það yrði of mikil röskun að því að fjölga kjósendum í einu vetfangi um tvo þriðju og því væri betra að fjölgunin kæmi í smáskömmtum. Einnig kemur fram bæði í umræðum á Alþingi og í blaðagreinum að sumir óttuðust sérframboð kvenna. Slíkt aldursákvæði var ekki sett í lög í neinu öðru evrópsku landi nema Bretlandi 1918 en þar var miðað við 30 ára aldur.
Ný stjórnarskrá með ákvæði um að konur og vinnumenn eldri en 40 ára fengju kosningarétt og kjörgengi til þingkosninga árið 1915. Átti að lækka aldurstakmarkið í skrefum um eitt ár á ári hverju þar til það væri komið niður í 25 ár til jafns við karlmenn. Það takmark hefði náðst árið 1931 að óbreyttri stjórnarskrá. Frá þessu var fallið árið 1920 og kosningaréttur karla og kvenna gerður jafn. Upplýsingar af Wikipedia
Mikilvægt er að bæði konur og karlar taki þátt í því að móta samfélagið sem við búum í, saman erum við svo mikið sterkari.