Huld Aðalbjarnardóttir, skrifstofu- og fjármálastjóri, kynnti ársreikning Framsýnar á aðalfundi félagsins fyrir árið 2014. Á árinu greiddu 2.378 félagsmenn til félagssjóðs Framsýnar á móti 2.265 á árinu 2013. 1.194 karlar og 1.184 konur. Iðgjöld félagsins námu 124.077.077 kr. á móti 115.193.347 kr. á árinu 2013 sem nemur um 8% hækkun á milli ára. Þess utan voru gjaldfrjálsir félagsmenn 243 á árinu. Þá voru greiddir út 904 styrkir úr sjúkrasjóði félagsins á móti 857 styrkjum 2013 og úr starfsmenntunarsjóðum voru greiddir 311 styrkir 2014 en 277 árið 2013. Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja 30.197.469 kr. á móti 29.478.415 á árinu áður sem er hækkun um 2% milli ára.
Á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík störfuðu 6 starfsmenn í 5,2 stöðugildum. Þar að auki störfuðu 4 starfsmenn í 0,5 stöðugildum hjá Framsýn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi , við orlofshús í Öxarfirði og félagsmenn á Raufarhöfn. Fram kom hjá Huld að ársreikningurinn er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og árið á undan, að öðru leyti en kemur fram í reikningsskilakafla ársreikningsins. Í sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 65.635.375 og eigið fé í árslok nam kr. 1.517.577.356.
Fyrir liggur að Framsýn er afar vel rekið stéttarfélag sem skilar sér í öflugu starfi, góðri þjónustu og háum styrkjum til félagsmanna í formi fræðslu- og styrkja úr sjúkrasjóði félagsins. Tekjuafgangur á síðasta ári var um 66 milljónir.