Skrif og viðtöl sem verið hafa við forseta ASÍ og fyrrverandi varaforseta Alþýðusambandsins síðustu dagana um kjarasamninga sem nokkur aðildarfélög innan SGS hafa gert við fyrirtæki á sínum félagssvæðum hafa kallað á umræðu og reiði verkafólks.
Að venju beina forsetarnir fýlunni og hrokanum að tveimur stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins, það er Framsýn og Verkalýðsfélagi Akraness og finna því öllu til foráttu að félögin séu að semja á heimavelli um allt of háar kjarabætur til félagsmanna. Það er kjarabætur sem ekki eru í boði hjá Samtökum atvinnulífsins.
Formenn þessara tveggja félaga eru í skotlínu forsetana, manna sem komu í veg fyrir stórslys í síðustu kjarasamningum þegar forsetarnir tveir fóru fyrir því að verkafólk samþykkti 2,8% launahækkun í kjarasamningum sem voru undirritaðir í lok desember 2013. Á félagsfundi í Framsýn þegar kjarasamningurinn var til kynningar spurði verkamaður, með um 200.000 krónur í mánaðarlaun, hvort þetta væri ekki prentvilla. Hvort ekki væri verið að tala um 28% hækkun í stað 2,8% hækkun. Svo reyndist því miður ekki vera í þessu tilfelli við lítinn fögnuð fundarmanna.
Sem betur fer voru samningarnir felldir, ekki síst fyrir ábendingar Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar um að hækkanirnar væru ekki boðlegar verkafólki. Í kjölfarið var hann lagfærður og samþykktur meðal félagsmanna þeirra félaga sem felldu samninginn í fyrri atkvæðagreiðslunni.
Af hverju forsetarnir velja að taka þennan pól í hæðina er ekki vitað. Af hverju þeir nefna ekki öll þau félög innan Starfsgreinasambandsins sem samið hafa við fyrirtæki á sínum félagssvæðum um að lægstu laun verði ekki lægri en kr. 300.000,- árið 2017 er ekki vitað. Markmið Framsýnar er skýrt, það er að nota hvert tækifæri sem gefst til að laga kjör félagsmanna sem mest. Því tekur félagið aldrei undir ályktun eins og ályktun Stéttarfélags Vesturlands og fyrrverandi varaforseta ASÍ þar sem varað er sérstaklega við kröfugerð sem ber með sér hækkun lægstu launa:
„Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands telur að verkalýðshreyfingunni sé nauðugur einn kostur að hefja kjarabaráttu sem færir íslenskt samfélag áratugi aftur í tímann, með háum kröfugerðum og þeim óróa á vinnumarkaði, sem þarf til að fylgja þeim eftir.“ Hver er þessi háa kröfugerð, jú 300.000 króna lágmarkslaun árið 2017.
Forsetunum tveimur, núverandi og fyrrverandi, mun ekki takast að sundra samstöðu aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem er til fyrirmyndar um þessar mundir undir stjórn öflugs framkvæmdastjóra, Drífu Snædal. Þessi hópur ætlar sér að ná fram kjarabótum til handa verkafólki í landinu, annað er ekki í boði.
Aðalsteinn Á. Baldursson
Sjá ályktun Stéttarfélags Vesturlands frá 20. janúar 2015.
Trúnaðarráð og trúnaðarmenn álykta
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna Stéttarfélags Vesturlands 20.01. 2015
Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands lýsir ábyrgð á hendur stjórnvöldum vegna þeirrar stefnu sem kjarasamningar eru nú að taka. Almennt verkafólk var fyrir ári, tilbúið að stíga skref í átt til þess sem tíðkast við kjarasamningagerð á hinum norðurlöndunum. Ríkið og sveitarfélögin sáu ekki ástæðu til að leggja því máli lið í raun og hafa hækkað laun sumra starfsmanna sinna um tugi prósenta. Nú síðast lækna um meira en 30 %. Almennt verkafólk getur ekki eitt axlað ábyrgð á svokölluðum stöðugleika og verður því að rísa upp og taka við þeim stríðshanska sem kastað hefur verið af stjórnvöldum.
Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands telur rétt að minna á að stjórnendur Samtaka atvinnulífsins og margir félagsmenn þeirra eru ekki síður sekir um að fylgja ekki eigin stefnu um hóflegar launahækkanir, þegar kemur að stjórnendum fyrirtækja. Þar getur launamunurinn orðið allt að fertugfaldur, frá almennum starfsmanni að forstjóra. Slíkar gjörðir stuðla ekki að friði.
Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands telur að verkalýðshreyfingunni sé nauðugur einn kostur að hefja kjarabaráttu sem færir íslenskt samfélag áratugi aftur í tímann, með háum kröfugerðum og þeim óróa á vinnumarkaði, sem þarf til að fylgja þeim eftir.