Hér má lesa hátíðarræðu formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar, sem hann flutti með miklum tilþrifum rétt í þessu á baráttudegi verkalýðsins í Íþróttahölinni á Húsavík.
Ágæta samkoma
Dagurinn í dag, 1. maí, hefur ákveðna merkingu enda á dagurinn sér langa sögu. Þá sameinast fólk víða um heim til að vekja athygli á stöðu sinni og helstu baráttumálum. Baráttumálum sem oftar en ekki snúast um aukin jöfnuð öllum til hagsbóta, burt séð frá kyni, þjóðerni, búsetu eða þjóðfélagslegri stöðu.
Reyndar veltir maður því oft fyrir sér hvort ríkjandi ójöfnuður sé orðin svo rotinn að okkur takist ekki að leiða þjóðarsálina inn á nýjar brautir. Ekki síst ef við horfum til þess hvað lítið hefur áunnist frá hruninu 2008. Ég upplifi þetta reglulega í mínu starfi sem forystumaður í stéttarfélagi og með því að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum.
Kjarnyrtar barátturæður á degi sem þessum þurfa ekki að vera langar til að lýsa því ástandi sem við búum við. Reyndar erum við alltof fljót að gleyma líðandi stundu og þeirri spillingu og misskiptingu sem við upplifum nánast daglega. En því miður fáum við alltaf ný og ný dæmi upp í hendurnar sem tengjast misskiptingunni í þjóðfélaginu.
Tökum dæmi af hækkun fram¬kvæmda¬stjóra KEA sem greint var frá í fjölmiðlum í vikunni sem fékk fimm milljóna króna launa¬hækkun milli ára.
Þá má einnig nefna nýlegt mál sem rataði óvart í fjölmiðla við lítinn fögnuð Samtaka atvinnulífsins. Sjávarútvegsfyrirtækið HB-Grandi verðlaunaði hluthafa fyrirtækisins með 2,7 milljörðum í arðgreiðslu. Stjórnarmenn fyrirtækisins fengu til viðbótar desert með rjóma, 33% hækkun á stjórnarlaun.
Með blóðhlaupin augu af siðblindu og græðgi tóku þeir við þessum greiðslum án þess að missa bros eða skammast sín, árangurinn var þeirra. Þessar gjörðir lýsa hugarfari sem er í raun óhugnalegt í íslensku samfélagi og einkennist af algjöru og nánast sjúklegum skorti á samkennd, náungakærleika og mannúð. Þessir einstaklingar hafa ekki skilning á því hvernig það er að eiga ekki mat ofan í börnin sín, geta ekki staðið í skilum, ná ekki endum saman. Þessir menn eru fátækir í anda.
Þeir skömmuðust út í þá sem leifðu sér að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð stjórnarinnar og kölluðu þá lýðskrumara.
Meðan á þessu stóð voru starfsmenn fyrirtækisins, fiskvinnslufólkið sem skapaði verðmætin, verðlaunað með íspinna með súkkulaði á toppnum. Íspinninn lítur jú betur út þannig.
Til eru menn sem telja þessa misskiptingu eðlilega. Hefði HB-Grandi í þessu sambandi orðið við kröfum Starfsgreinasambandsins um 300.000 króna lágmarkslaun innan þriggja ára hefði það kostað fyrirtækið um 400 milljónir á árinu 2015.
Í stað þess að hluthafarnir fengju 2,7 milljarða hefðu þeir fengið 2,3 milljarða í sinn hlut. Þetta eru stærðirnar kæru samkomugestir.
Þegar ég segi að til séu menn sem verja þessi verk, nefni ég ársfund Samtaka atvinnulífsins en ég var meðal gesta fundarins. Þar steig forystumaður samtakana í pontu og gangrýndi verkalýðshreyfinguna harðlega fyrir óábyrgar kröfur, það er, að leifa sér að krefjast þess að lægstu launin hækkuðu úr rúmlega tvöhundruð þúsundum króna í 236.000 krónur á mánuði.
Slíkar kröfur myndu kalla á stjarnfræðilega verðbólgu og annað hrun. Nær væri fyrir verkafólkið að taka við 7000 króna hækkun sem væri í boði Samtaka atvinnulífsins, það græddu allir á því.
Umvafinn blómaskreytingum pírði forystumaðurinn augun til að leggja áherslu á orð sín og það var ekki laust við að hann hryllti sig af vanþóknun til að lifa sig betur inn í boðskapinn. Það hefði mátt heyra saumnál detta, þögnin var þvílík meðal fundargesta yfir ræðu boðberans frá Samtökum atvinnulífsins.
Ekki síst þegar hann sagði að verkafólk væri eins og laumufarþegar, takið eftir laumufarþegar, sem ætluðu sér að klifra upp bakið á öðrum, ábyrgðarlaust. Heyr, heyr heyrðist í salnum. Slík var hrifning fundargesta.
Sami maður sem jafnframt er forstjóri Icelandair Group hafði skömmu áður laumast með flugmenn félagsins, sem áttu í kjaradeilum við fyrirtækið, út í bæ þar sem gengið var frá verulegum launahækkunum til að forða fyrirtækinu frá verkfalli. Það var gert í reykfylltu bakherbergi með dregið fyrir. Efnahagslífinu stóð ekki ógn af þeim samningi þrátt fyrir að flugmenn verði seint kallaðir láglaunamenn.
Mér var að sjálfsögðu brugðið undir ræðu stjórnarformanns Samtaka atvinnulífsins, sitjandi sem gestur til borðs með Kristjáni Loftsyni stjórnarmanni í HB-Granda á ársfundi SA sem nýlega fékk væna sneið af arðgreiðslum frá fyrirtækinu og góða hækkun á stjórnarlaunin meðan ekki var í boði að hækka laun fiskvinnslufólks um 35.000 krónur á mánuði. En það eiga víst ekki allir rétt á ábót.
Á stundum sem þessum veltir maður því alvarlega fyrir sér hvort maður sé í raun heilbrigður, réttsýn eða hreinlega bilaður og með skerta greindarvísitölu.
Af hverju kaupir maður ekki þennan boðskap, af hverju er maður svona vitlaus? Það er að verkamaður sem er með ríflega 200 þúsund krónur á mánuði og fer fram á 35.000 króna hækkun sé að stefna öllu til helvítis með sínum kröfum meðan aðrir hópar þjóðfélagsins hafa fengið margfaldar, já margfaldar hækkanir verkafólks án þess að varað sé við því sérstaklega.
Og á meðan fjármálafyrirtæki fara fram á að það verði gert löglegt að greiða 100 til 200% í kaupaukagreiðslur til valina starfsmanna, það er til viðbótar ofurlaunum. Svo ekki sé talað um Seðlabankastjóra sem endalaust stigur fram á sviðið á vitlausum tímapunkti og varar við hækkunum til láglaunafólks, það stefni efnahagslífi og stöðugleika þjóðarinnar í stór hættu.
Eitt er ljóst að seðlabankastjóri hefði aldrei getað orðið góður leikari hjá Leikfélagi Húsavíkur eða Leikdeild Eflingar þar sem hann stigur endalaust fram á leiksvið þjóðarbúsins á vitlausum tímapunkti. Hugsanlega hefði verið hægt að notast við hann sem hvíslara, hver veit.
Hann sá t.d. ekki ástæðu til að stiga fram þegar ákveðnir hópar fengu tug prósenta hækkanir umfram verkafólk og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Ég verð að trúa því að hann hafi verið í sumarfríi á þeim tíma eða hjá lögfræðingi að verja sín eigin kjör gagnvart Seðlabankanum. Ég neita að trúa öðru.
Á sama tíma og maður verður vitni af þessari firringu hjá Samtökum atvinnulífsins og ákveðnum valdamönnum í þjóðfélaginu kemst maður niður á jörðina þegar maður les greinar eftir fólk sem er í sömu stöðu og sá sem hér stendur sem forystumaður í stéttarfélagi. Það er að vinna með fólki sem nær ekki endum saman þrátt fyrir mikla og erfiða vinnu.
Hér er ég að vitna í grein Hörpu Njálsdóttur sérfræðings í velferðarrannsóknum sem hún skrifaði í Morgunblaðið.
Í grein Hörpu kemur fram að vafi sé á því að krafa Starfsgreinasambandsins um 300 þúsund króna brúttólaun dugi til framfærslu. Harpa hefur stundað rannsóknir á fátækt og afkomu um árabil. Hún segir að til lengri tíma litið hafi raunin verið sú að laun á almennum vinnumarkaði hafi verið ákvörðuð í kjarasamningum án þeirrar ábyrgðar að þau dugi til framfærslu í íslensku samfélagi. Það sé meðal annars ástæða þess að hópar vinnandi fólks búi við skort og fátækt.
Launakrafa Starfsgreinasambandsins geti hvorki talist óraunhæf né ofmetin með tilliti til framfærslukostnaðar í íslensku samfélagi. Launakrafan dugi ekki fyrir framfærsluviðmiði Umboðsmanns skuldara sem sé lágmarksframfærsluviðmið. Harpa segir mál að linni. Það sé þjóðarskömm að bjóða upp á kjör á almennum vinnumarkaði sem hneppi fólk í skort og fátækt. Tilvitnun líkur.
Ég get ekki verið meira sammála og segi heyr, heyr, þessi kona er með puttana á púlsnum.
Þegar ég les greinar sem þessar kemst ég aftur niður á jörðina og útskrifa mig sem fullkomlega eðlilegan, eða þannig hugsa örugglega einhverjir í salnum.
Ekki skemmir heldur fyrir að lesa skrif ritstjóra Skarps um kjaramál eða nýlega grein í sama blaði eftir Örn Jóhannsson þar sem hann talar um kjör öryrkja og aldraðra sem hann telur bágborin og kallar eftir stuðningi frá verkalýðshreyfingunni.
Ég er kominn heim. Þetta er fólkið sem ég virði og hlusta á, rödd alþýðunnar, þetta er veganestið sem ég tek með mér í baráttunni fyrir jöfnuði sem byggir á eðlilegri skiptingu þjóðarkökunnar og fær mig til að hafna alfarið brauðmolavæðingu Samtaka atvinnulífsins.
Án efa var ég boðflenna á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, þar tala menn annað tungumál, tungumál sem ég skil ekki og á vonandi aldrei eftir að skilja.
Ég skil hins vegar vel tungumál þeirra manna sem ég hef vitnað í og kalla eftir auknu réttlæti og jöfnuði. Það er hin sanna íslenska sem sprottin er upp hjá fátæku alþýðufólki fyrri tíma. Fólki sem þurfti að berjast fyrir lífi sínu og afkomenda til að hafa í sig og á.
Ágætu félagar?
Mér hefur orðið tíðrætt um stöðuna í þjóðfélaginu sem þarf ekki að koma á óvart. Verkfall hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins hófst í gær og heldur áfram í næstu viku.
Verði ekki búið að semja þann 26. maí hefst allsherjarverkfall um tíu þúsund verkamanna í landinu.
Ábyrgðin skrifast alfarið á Samtök atvinnulífsins sem bjóða verkafólki um 7000 króna hækkun á mánuði eða 3,5% launahækkun. Með þessu tilboði eru samtökin að senda verkafólki fingurinn, fólki sem sat eftir í síðustu kjarasamningum með um 2,8% launahækkun.
Þá má geta þess að meðallaun stjórnarmanna í Samtökum atvinnulífsins eru um 3 milljónir á mánuði. Hækkun til þeirra upp á 3,5% myndi skila þeim yfir 105 þúsundum króna launahækkun. Hagsmunapot þeirra miðast við að samið verði um % hækkanir í stað krónutöluhækkunar þar sem hagsmunir þeirra liggja þar. Er eðlilegt að verkafólk taki við 7000 króna hækkun meðan mennirnir við háborðið taka til sín yfir 100 þúsund króna hækkun, NEI.
Það er alveg kýrskýrt að aðildarfélög Starfsgreinasambandsins ætla ekki að láta Samtök atvinnulífsins komast upp með þennan gjörning og hafa því boðað verkföll. Vilji stéttarfélaganna er ekki að fara í verkföll heldur semja.
Það gleðilega er að það er hljómgrunnur í þjóðfélaginu fyrir hækkun lægstu launa, því miður nær sá hljómgrunnur ekki í gegnum þykka vegi húsnæðis Samtaka atvinnulífsins við Borgartúnið í Reykjavík.
Í nýlegri könnun Gallup sem kynnt var í vikunni kemur fram að 91,6% landsmanna eru hlynnt kröfum Starfsgreinasambandsins um að hækka lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði í 300.000 krónur á mánuði innan þriggja ára. Að mati þeirra sem tóku þátt í könnuninni áttu lágmarkslaunin að vera heldur hærri eða 329.000 krónur á mánuði.
Samtök atvinnulífsins hafa haldið því fram að ekki sé stuðningur meðal þjóðarinnar fyrir hækkun lægstu launa. En á ný skjóta samtökin yfir markið í sínum málflutningi.
Ég skal hins vegar viðurkenna það að ég er stoltur yfir þeim fyrirtækjum á félagssvæði Framsýnar sem hafa verið í sambandi við félagið síðustu daga og óskað eftir gerð kjarasamnings á nótum félagsins. Í þessum töluðu orðum hafa níu fyrirtæki skrifað undir kjarasamninga við félagið og nokkrir samningar bíða undirritunar eftir helgina. Hafið kærar þakkir fyrir ykkar framlag til að eyða fátækragildrunni í þjóðfélaginu og viðurkenna þannig sjálfsögð mannréttindi vinnandi fólks.
Þá skal ég einnig fúslega viðurkenna að mér er mikið niðri fyrir hér í dag þar sem ég er reiður yfir skilningsleysi Samtaka atvinnulífsins og þeirrar spillingar og misskiptingar sem viðgengst í þjóðfélaginu. Það hefur mátt heyra á máli mínu hér í dag að svo er.
Að lokum langar mig til að biðja ykkur um að senda skýr skilaboð út í þjóðfélagið með kröftugu lófaklappi og sýna þannig í verki að við styðjum kröfuna um 300.000 króna lágmarkslaun á Íslandi. Klöppum vel fyrir því, Takk fyrir