Starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (H.Þ.) harma þann niðurskurð sem Heilbrigðisráðuneyti gerir H.Þ. að fylgja skv. fjárlögum yfirstandandi árs, sem samþykkt voru frá Alþingi 16. desember 2010. Við krefjumst þess að Heilbrigðisráðherra og stjórnvöld snúi frá þeirri áætlun að skerða fjárlög til Heilbrigðisstofnana á landinu enn frekar á komandi ári. Niðurskurður á fjárframlögum til H.Þ. á síðustu árum er nú þegar farinn að valda skerðingu á grunnþjónustu á þjónustusvæðinu. Okkur þykir því ljóst að frekari niðurskurður gæti ógnað öryggi íbúa svæðisins.
Það skýtur skökku við, á niðurskurðartímum, að núverandi velferðarráðherra stæri sig af því í fjölmiðlum að við nýtilkomna sameiningu félagsmála- og heilbrigðisráðuneytis hafi ekki þurft að segja upp starfsfólki. Ólíklegt má telja að aðrar ríkisreknar stofnanir kæmust upp með slík vinnubrögð. Við sjáum ekki í hendi okkar í hverju þessi hagræðing liggur og hverju hún skilar fyrir þjóðarbúið.
Undanfarið hafa ráðherraskipti verið tíð í heilbrigðisráðuneytinu, nú velferðar-ráðuneyti, sem haft hefur í för með sér tíðar áherslubreytingar í heilbrigðismálum. Þessar aðstæður gera stjórnendum og starfsfólki erfiðara fyrir að vinna faglega og skipulega að þjónustu við íbúa svæðisins. Skort hefur innsæi í og yfirsýn yfir hvaða þjónustu er verið að veita á landsbyggðinni. Við sjáum ekki sparnaðinn í því að færa ódýrari þjónustu sem veitt er á minni stöðum yfir á stærri og kostnaðarsamari stofnanir.
Við krefjumst markvissrar stefnu í heilbrigðismálum sem byggja má á til lengri tíma og sem tryggir grunnþjónustu við alla íbúa landsins, óháð búsetu.
f.h. starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga
Starfsmannaráð
Kristín Baldursdóttir
Guðrún Guðbjartsdóttir
Anita Hólm Sigurðardóttir
Kristey Þráinsdóttir
Kornína Óskarsdóttir
Sólveig Pétursdóttir