Framsýn hefur áhyggjur af öryggismálum í fiskvinnslu

Í ljósi úttektar Vinnueftirlitsins á öryggismálum í fiskvinnslu hefur stéttarfélagið Framsýn samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Ályktun
um vinnuslys í fiskvinnslu

Framsýn, stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum vegna fjölgunar vinnuslysa í fiskvinnslu á Íslandi. Samkvæmt úttekt Vinnueftirlitsins er ástandið ekki viðunandi og hefur stofnunin krafist úrbóta þegar í stað hjá nokkrum fiskvinnslufyrirtækjum.

Í úttekt Vinnueftirlitsins kemur m.a. fram: „ Það er algerlega óviðunandi í upphafi 21. aldarinnar að slysum í fiskvinnslu fjölgi. Fiskvinnslan þarf að taka sig á, öryggismál í fiskvinnslu verða ekki í lagi nema að fiskvinnslan vilji það sjálf.“

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með Vinnueftirlitinu um mikilvægi þess að öryggismál í fiskvinnslu séu í fullkomnu lagi. Í því sambandi gegnir Vinnueftirlitið mikilvægu eftirlitshlutverki. Þá er ábyrgð hönnuða vinnslulína og fyrirtækja í fiskvinnslu mikil, þar sem þeim ber skylda til að tryggja öryggi starfsmanna.

Samantekt Vinnueftirlitsins er mikill áfellisdómur yfir atvinnugreininni og kallar á frekari umræðu. Fyrir liggur að aukin tæknivæðing hefur aukið afköst í fiskvinnslu það mikið að talað er um tæknibyltingu, jafnframt sem aukin framleiðni hefur bætt afkomu fyrirtækjanna. Á sama tíma hefur ekki verið hugað að velferð starfsmanna sbr. samantekt Vinnueftirlitsins um fjölgun slysa í greininni. Þá liggur fyrir að með aukinni tækni hafa stoðkerfisvandamál hjá fiskvinnslufólki aukist, sem er ólíðandi með öllu.

Framsýn, stéttarfélag kallar eftir umræðu um vinnuverndarmál í fiskvinnslu með það að markmiði að fækka slysum og horft verði til þess hvernig hægt er að tryggja öryggi og velferð starfsmanna með viðunandi hætti.

Framsýn samþykkti í dag að senda frá sér ályktun um öryggismál starfsfólks í fiskvinnslu.

Deila á