Við látum ekki traðka á okkur mikið lengur voru skilaboð fundarmanna.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut, fimmtudaginn 29. janúar 2015 og hófst hann kl. 20:00. Gestur fundarins er Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.

Undir liðnum, Venjuleg aðalfundarstörf fór Jóna Matthíasdóttir formaður deildarinnar yfir skýrslu stjórnar fyrir síðastliðið starfsár sem er meðfylgjandi þessari frétt. Þá fór fram stjórnarkjör. Formaður deildarinnar er kosinn til tveggja ára í senn og hefst nú síðara starfsár hans. Aðrir aðilar í stjórn og varastjórn eru kosnir til eins árs. Tillaga var borin upp um óbreytta stjórn, þ.e. Jónína Hermannsdóttir og Birgitta Bjarney Svavarsdóttir í aðalstjórn og til vara Emilía Aðalsteinsdóttir og Katarzyna Osipowska. Engar aðrar tillögur bárust og var stjórnin samþykkt með lófaklappi.

Því næst voru kjaramál tekin til umræðu. Gestur fundarins Aðalsteinn Árni Baldursson fjallaði um stöðuna í kjaraviðræðunum og bar saman t.a.m. þá hækkun sem félagsmenn fengu á sl. ári við þá samninga sem hafa verið gerðir undanfarið. Einnig varpaði hann fram töxtum verslunarmanna og nokkur umræða varð um bilið milli launaflokka og starfsaldurs. Sterk gagnrýni kom fram frá fundarmönnum að löng starfsreynsla og tryggð við fyrirtæki væri ekki að skila sér inn í launtaxtana og því mikilvægt að laga launatöflur til samræmis við það. Samtök atvinnulífsins spá 27% verðbólgu ef kröfur verkafólks, athugið þeirra sem eru með lægstu launin í þjóðfélaginu, nái fram að ganga sem er ótrúlegur talnaleikur í samanburði við 18% verðbólgu í hruninu sagði Aðalsteinn. Í síðustu samningum, sem voru felldir í fyrstu tilraun, náðist þokkaleg hækkun í desemberuppbót en þá var um svokallaðan aðfarasamning að ræða. Eftir umræðu fundarmanna var meiri áhugi fyrir því að ná hækkun launa fram í stað t.a.m. aukinnar desemberuppbótar. Þó nokkur umræða var um lágmarksframfærslu og viðmiðunarfjárhæðir opinberra aðila. Hækkanir á almennum matvælum og lækkun á sykurskatti leggst illa í fundarmenn og mikilvægt er að í kjölfar samninga munu hækkanir á vegum ríkis og sveitarfélaga ekki dynja yfir landsmenn. Fundarmenn eru til í átök, hvort heldur sem farið verður í skærur eða verkfall, það er útfærsluatriði til síðari tíma. Þeir eru langþreyttir á þeim mismun sem viðgengst í þjóðfélaginu og blákaldur veruleiki að fólk þarf að skammta sér matarpeninga, t.d. er kaup á lambakjöti munaður. Svo ekki sé minnst á læknis-, lyfja og tannlæknakostnað. Fundarmenn lögðu mikla áherslu á krónutöluhækkanir og vilja sjá hækkun á persónuafslætti og styðja heilshugar kröfugerð Framsýnar sem þegar hefur komið fram. Við látum ekki traðka á okkur mikið lengur voru skilaboð fundarmanna.

Undir liðnum önnur mál kom fram að tillaga að nýjum trúnaðarmanni í Kaskó, en það er Katarzyna Osipowska sem tekur við af Ingunni Ólínu Aðalsteinsdóttur sem nú er orðin verslunarstjóri. Tillagan var borin upp og samþykkt og Kasia boðin velkomin til starfa.

Jónína Hermannsdóttir starfsmaður stéttarfélaganna fór stuttlega yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á reglum Starfsmenntunarsjóðs verslunar- og skrifstofufólks en þær má finna á vefnum www.starfsmennt.is

Jóna formaður minnti fundarmenn á að búið væri að endurprenta og uppfæra bækling Framsýnar um réttindi og kjör og hvatti þá til að sækja t.a.m. um endurmenntunarsjóði.

Skýrsla stjórnar

Kæru félagsmenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks bjóða ykkur velkomin til aðalfundar deildarinnar. Deild verslunar- og skrifstofufólks varð til þann 1. maí 2008 við sameiningu Verslunarmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis undir nafninu Framsýn- stéttarfélag. Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári; Jóna Matthíasdóttir formaður, Jónína Hermannsdóttir varaformaður, Birgitta Bjarney Svavarsdóttir ritari og í varastjórn sitja Katarzyna Osipowska og Emilía Aðalsteinsdóttir. Stjórnin hélt þrjá formlega stjórnarfundi á árinu auk þess að taka þátt í jólafundi Framsýnar. Samkvæmt lögum félagsins er formaður deildarinnar einnig sjálfskipaður í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar getur formaður fylgt eftir málefnum deildarinnar og miðlað upplýsingum milli stjórna. Aðrir fulltrúar aðalstjórnar sitja auk þess í stjórnum og ráðum innan Framsýnar. Stjórn deildarinnar vill þakka starfsmönnum og formanni félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu. Formaður og varaformaður deildarinnar sóttu formannafund LÍV í september sl. þar sem helsta umræðuefni voru kjarasamningar, launakönnun VR auk þess sem fjallað var um horfur í efnahagsmálum. Formaður sat þing ASÍ sem fram fór í Reykjavík í október ásamt fleirum fulltrúum Framsýnar en góð og markviss málefnavinna fór fram á þinginu. Haustfundur AN fór fram á Illugastöðum sem var vel sóttur af fulltrúum Framsýnar, m.a. formanni deildarinnar. Þing LÍV verður haldið á komandi vor en formaður situr þar í kjörnefnd.

Félagatal
Á síðasta ári greiddu 222 einstaklingar til félagsins, þar af eru konur í miklum meirihluta eða 165 á móti 57 karlmann. Félagsmönnum innan deildarinnar hefur fjölgað um rúm 18% á milli ára, hlutfallslega fleiri körlum heldur en konum.

Fjármál
Innkoma félags- og iðgjalda er nokkuð jöfn milli ára. Endurskoðaður ársreikningur félagsins verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður með vorinu. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til. Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum, auk þess sem Verkalýðsfélag Þórshafnar er með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á sl. ári. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

Kjara- og samningamál
Eins og þið vitið gilda núverandi kjarasamningar út febrúar mánuð. Haldnir voru félagsfundir innan Framsýnar fyrir tveimur vikum og mótaði samningsnefnd Framsýnar kröfugerð sína í kjölfar þeirrar umræðu. Verður hún til umfjöllunar hér í kvöld. Enn er samningsumboðið hjá Landssambandi íslenskra verslunarmanna sem væntanlega sér um samningagerð við Samtök atvinnulífsins. Mikill urgur er meðal félagsmanna vegna samninga sem hafa verið gerðir á síðustu mánuðum þar sem samið hefur verið um umtalsverða og margfalt meiri hækkun heldur en við fengum í síðustu samningum.

Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa með sér gott samstarf í orlofsmálum sem er mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Enn var aukið við flóruna og gengið frá samningum við nýja aðila. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á Foss- og Edduhótelum, Hótel Keflavík, Hótel KEA, Hótel Norðurland, Hótel Reykjavík Lights, Lamb-inn Öngulsstöðum, Gistihús Keflavíkur, á farfuglaheimilum, endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Nýting á íbúðum okkar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mjög góð og því ber að fagna. Ekkert punktakerfi er við lýði hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslu heldur leitast við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun.

Það er fagnaðarefni að áframhaldandi samningur náðist við flugfélagið Ernir sem býður félagsmönnum Framsýnar flugmiða aðra leið milli Húsavíkur og Reykjavíkur á kr. 7.500. Þetta er gríðarlega mikil kjarabót fyrir alla félagsmenn sem auk þess styrkir áframhaldandi flug um Húsavíkurflugvöll. Seldir flugmiðar til félagsmanna voru 2.959 á síðasta ári eða tæplega 250 að meðaltali á mánuði. Miðað við meðalverð á fargjaldi og þann fjölda farmiða, má áætla að heildarhagnaður félagsmanna hafi verið tæpar 30 milljónir.

Fræðslu- og kynningarmál
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Alls fengu 39 félagsmenn starfsmenntastyrki á árinu 2014, alls að upphæð kr. 949.902. Það er hækkun um 22% í krónum talið milli ára og 15 fleiri félagsmenn sem fengu styrk. Á síðasta ári tóku nýjar reglur gildi á Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks sem auka réttindi þeirra sem eru í lægri tekjuhópunum en þar hafa þeir tekjuhærri verið með mun betri réttindi hingað til. Við þær breytingar tvöfaldast réttindi þeirra sem eru undir meðallaunum miðað við það sem áður var en felur einnig í sér að réttindaávinnsla þeirra tekjuhærri verður hægari.

Kynningarbæklingur Framsýnar um starfsemi félagsins og réttindi félagsmanna til ýmissar niðurgreiðslu var uppfærður og endurprentaður í lok síðasta árs. Við hvetjum félagsmenn okkar til að kynna sér réttindi sín og nýta það sem í boði er. Formaður og varaformaður litu við í heimsóknir hjá fyrirtækjum á svæðinu, alltaf má gera betur og vera sýnilegri og stefnum við að því halda þessum heimsóknum áfram.

Fréttabréf og heimasíðan www.framsyn.is
Framsýn heldur úti öflugri heimasíðu með góðri upplýsingagjöf og daglegum fréttaflutningi af starfsemi félagsins auk annarra mála. Einnig er fréttabréf stéttarfélaganna mikilvægur þáttur í starfsemi stéttarfélaganna. Fréttabréfinu er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna. Fréttabréfinu er dreift frítt á öll heimili á félagssvæðinu og kemur út á tveggja mánaða fresti.

Málefni skrifstofunnar
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 4 starfsmenn, í fullu starfi, á skrifstofunni og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Mjög gott samstarf er við Ágúst Óskarsson starfsmanna VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum en mjög góð reynsla og árangur má sjá af starfi hans. Eins og kunnugt er, lokaði Vinnumálastofnun þjónustuskrifstofu sinni sem hér var til húsa: Þrátt fyrir víðtæk mótmæli var þeirri ákvörðunartöku ekki breytt og skerðingu á þjónustu við félagsmenn okkar því staðreynd.

Jöfn og góð nýting er hér í félagsaðstöðu okkar, bæði á vegum stéttarfélaganna auk þess sem aðrir aðilar geta leigt hér aðstöðu. Um síðustu áramót komu nýir leigutakar inn í laust skrifstofurými á jarðhæðinni, það eru Enor endurskoðun og TM tryggingar.

Lokaorð
í þessari samantekt hef ég gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Nú er kjarabarátta framundan og búast má við hörðum slag. Við viljum hvetja félagsmenn til að taka þátt í þeirri umræðu, láta rödd sína heyrast og mæta til kjörfunda. Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.

Jóna Matthíasdóttir, formaður.

Jóna Matthíasdóttir er formaður Deildar Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Hún er starfsmaður Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Konur voru í miklum meirihluta á fundinum.

Farið yfir málin á fundinum. Hér er verið að fjalla um starfsemi deildarinnar á síðasta ári sem var mjög öflug.

Það er alltaf ánægjulegt þegar unga fólkið lætur sig varða kjara- og verkalýðsmál og mætir á fundi enda mikilvægur þáttur í lífi fólks. Hér má sjá eina glæsilega stúlku, Berglindi Ólafsdóttir, sem tók virkan þátt í aðalfundinum.

Deila á