Umferðin um Víkurskarð jókst um 8,6 prósent í fyrra

Umferðin um Víkurskarð austan Akureyrar jókst um 8,6 prósent í fyrra miðað við árið 2013. Að meðaltali fóru 1.230 bílar á dag um skarðið en yfir sumartímann fóru 2.155 bílar á hverjum degi, og munar þar mikið um þann mikla vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustunni.

Um 450 þúsund bílar fóru um Víkurskarð árið 2014 samanborið við 413 þúsund árið 2013. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er þessi umferð meiri en spáð hafði verið fyrir árið, og liggur niðurstaðan mitti á milli líklegustu spár og hæstu spár.

Þessar umferðartölur eru töluvert hærri en margir höfðu reiknað með, meðal annars Pálmi Kristinsson verkfræðingur, sem vann ítarlega skýrslu um Vaðlaheiðargöng og forsendur þeirra. Meðal annars var þar farið yfir umferðarforsendur um svæðið og Víkurskarð í skýrslu hans, en hann gerði ekki ráð fyrir að spár um umferðaraukningu myndu ganga eftir, að því er hann sagði í viðtali við RÚV.

Vaðlaheiðargöng, sem nú eru verið að vinna að, munu vafalítið draga nær alveg úr umferð um Víkurskarð. Göngin verða á milli Eyjarfjarðar og Fnjóskadals, ríflega sjö kílómetra löng, og styttist leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 kílómetra. Kostnaður við göngin er áætlaður ríflega níu milljarðar króna. (Þessi frétt er á hinum ágæta vef kjarninn.is og er tekin þaðan)

Myndin er af verkamönnum sem eru við störf í Vaðlaheiðargöngum. Formaður Framsýnar er einnig á myndinni.  Mynd:Framsýn.

Deila á