Bakherbergið: Gjá milli stjórnenda og fólksins á gólfinu

Þessa  greiningu á kjaramálum má lesa inn á þeim ágæta vefmiðli kjarninn.is. Vonandi verður hún til þess að verkalýðsforystan standi í fæturna í næstu kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins:

Í bakherberginu er fólk farið að velta fyrir sér kjarasamningsviðræðum og hversu miklum launahækkunum forysta verkalýðshreyfingarinnar mun krefjast. Ljóst má vera, að svigrúmið til launahækkana er mikið, sé horft til launaþróunar stjórnenda margra stærri fyrirtækja landsins. Þetta á ekki síst við um þjónustufyrirtæki þar sem lífeyrissjóðirnir koma að stjórnum félaganna sem stærstu hluthafar.

Hagar er ágætt dæmi um þetta. Það fyrirtæki greiðir stjórnendum verulega góð árangurstengd laun á meðan starfsfólkið á gólfinu, sem skiptir mestu um hinn eiginlega árangur fyrirtækisins dag frá degi, fær verulega léleg laun í samanburðinum. Samkvæmt ársreikningi Haga fyrir árið 2013 til 2014 þá fékk Finnur Árnason forstjóri 35,3 milljónir króna í árangurstengd laun fyrir árs vinnu, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, nákvæmlega sömu upphæð. Í grunnlaun hefur Finnur síðan 34,4 milljónir króna og Guðmundur 24,4 milljónir. Mánaðarlaun Finns með árangurstengdum launum, auk bifreiðahlunninda, nema ríflega sex milljónum á mánuð, og hjá Guðmundi eru þau tæplega 5,2 milljónir. Athygli vekur að lykilstjórnandi hjá félaginu, Guðrún Eva Gunnarsdóttir fjármálastjóri, er með margfalt lægri laun en Finnur og Guðmundur. Sérstaklega er það sláandi þegar skoðuð eru árangurstengd laun. Hún fær sex milljónir, á meðan Finnur og Guðmundur fá 35,5 milljónir. Hvers vegna í ósköpunum? Af því að hún er kona? Sú spurning á fullan rétt á sér.

Í bakherberginu er því velt upp, hvort verkalýðsforystan eigi ekki að gera kröfu um að árangurstengdum launagreiðslum fyrirtækisins sé dreift til allra starfsmanna Haga frekar en einungis til stjórnenda. Þá er því líka velt upp, hvort verkalýðsforystan sé ánægð með þessa launastefnu hjá Högum, sem á allt sitt undir góðu starfsfólki á gólfinu. Bónus hefur líka innan sinna vébanda einstaklega gott starfsfólk, sem fólkið í bakherbergingu man eftir vegna góðs viðmóts og þjónustu, enda verslar það mikið í Bónus.

Áhugavert verður að fylgjast með því, til hvaða raka verður gripið í kjarasamningsviðræðum þegar stjórnendur stórra fyrirtækja eins og Haga, og stjórnarmenn fyrirtækjanna í umboði lífeyrissjóðanna, reyna að réttlæta hálaunastefnuna hjá stjórnendum og láglaunastefnuna hjá fólkinu á gólfinu.

Kjarninn.is

Deila á