29. þingi Sjómannasambands Íslands lauk þann 5. desember síðastliðinn með afgreiðslu ályktana frá þinginu og stjórnarkjöri. Sævar Gunnarsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formannsstarfa og í hans stað var Valmundur Valmundsson frá Sjómannafélaginu Jötni í Vestmannaeyjum kosinn formaður sambandsins næstu tvö árin. Þá má geta þess að Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar hlaut kjör í vara sambandsstjórn sambandsins.
Ályktanir 29. þings Sjómannasambands Íslands 4. – 5. des. 2014.
29. þing Sjómannasambands Íslands ítrekar enn og aftur mótmæli vegna aðfarar stjórnvalda að sjómönnum með afnámi sjómannaafsláttarins. Það er á ábyrgð stjórnvalda að kjör sjómanna skerðist ekki þó ákvörðun sé tekin um það á hinum pólitíska vettvangi að kostnaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna. 29. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðin og stjórnvöld semji við samtök sjómanna um skattfrjálsa dagpeninga sem kæmi í stað sjómannaafsláttarins.
29. þing Sjómannasambands Íslands vísar á bug kröfu SFS (LÍÚ) um verulega lækkun launa sjómanna vegna veiðigjalda og annars rekstrarkostnaðar útgerðarinnar. Veiðigjöldin eru skattur á útgerðina sem stjórnvöld kjósa að leggja á hagnað hennar. Auk þess hafa veiðigjöld á útgerðina verið lækkuð undanfarin ár og olíuverð fer nú lækkandi á heimsmarkaði. Engin rök eru fyrir kröfu útgerðarmanna á hendur sjómönnum.
29. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að Alþingi Íslendinga sjái til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eins og reglurnar eru í dag getur kaupandi og seljandi fisks verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið í eigin viðskiptum. Að mati þingsins getur þetta verðmyndunarkerfi ekki gengið lengur og því nauðsynlegt að setja reglur sem skylda útgerðina til að selja allan afla, sem fer til vinnslu innanlands, á uppboðsmarkaði fyrir sjávarfang.
29. þing Sjómannasambands Íslands hafnar alfarið hugmyndum Samtaka fiskvinnslu og útflutnings (SFÚ) um fast verð fyrir fisk sem gildi fyrir uppgjör til sjómanna þótt hærra verð fáist á fiskmörkuðum. Undarlegt er að samtök sem ættu að vera samherjar sjómanna í baráttunni fyrir að allur fiskur skuli seldur á fiskmarkaði láti slíka firru fara frá sér í ályktun. Slík breyting á hlutaskiptareglum kjarasamninga sjómanna væri aðeins enn ein aðförin að kjörum sjómanna en hefði engin áhrif á framboð á fiski á fiskmörkuðunum.
29. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla (afli utan kvóta). Samkvæmt kjarasamningum á að gera upp við sjómenn úr heildarverðmæti aflans. Önnur framkvæmd á því, þrátt fyrir fyrirmæli í lögum um stjórn fiskveiða, er klárt brot á kjarasamningum.
29. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði veiðiskylda aukin verulega eða frjálst framsal aflamarks afnumið. Samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu.
29. þing Sjómannasambands Íslands fagnar væntanlegu frumvarpi sjávarútvegráðherra um að endurreisa Kvótaþing þar sem öll viðskipti með aflamark og aflahlutdeildir muni fara fram.
29. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til Hafrannsóknastofnunarinnar. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er því nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið og kanna áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland.
29. þing Sjómannasambands Íslands leggst ekki gegn sameiningu Hafrannsóknastofnunarinnar og Veiðimálastofnunar, að því gefnu að hin sameinaða stofnun fái nægt fé á fjárlögum til að sinna lögbundnu hlutverki sínu varðandi stofnmat fiskistofna og annarra verka sem stofnuninni er ætlað að sinna.
29. þing Sjómannasambands Íslands hvetur áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. Þingið telur nauðsynlegt að öll áhöfnin staðfesti með undirskrift að æfing hafi verið haldin um borð. Þannig er komið í veg fyrir málamyndaæfingar. Einnig skorar þingið á yfirmenn fiskiskipa að sjá til þess að nýliðar fái lögbundna fræðslu um öryggisbúnað og hættur um borð.
29. þing Sjómannasambands Íslands hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntunarsjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera. Jafnframt mótmælir þingið áformum stjórnvalda að skerða fjárframlög til framhaldsfræðslu.
29. þing Sjómannasambands Íslands beinir þeim tilmælum til Slysavarnarskóla sjómanna að taka upp samstarf við slysavarnardeildir, slökkvilið og stéttarfélög sjómanna víðs vegar um landið um að koma á endurmenntunarnámskeiðum í heimabyggð. Jafnframt þakkar þingið Slysavarnarskóla sjómanna fyrir frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki.
29. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir harðlega þeirri tilhneigingu einstakra útgerðarmanna að fækka í áhöfn skipa á kostnað öryggis skipverja. Þingið hvetur stjórnvöld til að láta gera rannsókn á afleiðingum fækkunar í áhöfn vegna aukins vinnuálags sem af því leiðir. Í framhaldi verði sett lög um lágmarks mönnum fiskiskipa eftir stærð, gerð og veiðiaðferðum.
29. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt rekstrarfé á hverjum tíma. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna.
29. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að stjórnvöld standi við gerða samninga um jöfnun örorkubyrði í almennu lífeyrissjóðunum.