Mikið fjölmenni er nú samankomið í Íþróttahöllinni á Húsavík á afmælishátíð Framsýnar í frábæru veðri. Dagskráin er full af skemmtiatriðum auk þess sem forseti Íslands, Ólafur Grímsson flytur ávarp og formaður Framsýnar flytur hátíðarræðu dagsins sem sjá má hér:
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og forsetafrú Dorrit Moussaieff og aðrir hátíðargestir. Ég bíð ykkur öll hjartanlega velkomin á þessa afmælishátíð sem nú er að hefjast.
Í dag erum við að upplífa sögulega stund í framfara sögu okkar Þingeyinga þar sem ein öld er liðin frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur. Það var þann 14. apríl 1911 sem fátækir verkamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín. Alls skrifuðu 43 einstaklingar undir lög félagsins sem samþykkt voru á stofnfundinum. Fyrsti formaðurinn var Benedikt Björnsson kennari sem var réttsýn og víðlesinn maður sem lengi hafði látið sig félagsmál varða. Hann var því vel fallinn til forystu.
Ljóst er að það þurfti áræði og kjark á sínum tíma til að stofna verkalýðsfélag sem hafði það að markmiði að gæta hagsmuna félagsmanna. Allt frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur hefur mikil gerjun átt sér stað í stéttarvitund fólks í Þingeyjarsýslum. Árið 1918 stofnuðu verkakonur með sér félag, Verkakvennafélagið Von. Vorið 1964 sameinuðust þessi tvö félag undir nafninu Verkalýðsfélag Húsavíkur. Upp úr því urðu til önnur stéttarfélög eins og Verslunarmannafélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Raufarhafnar og Verkalýðsfélag Presthólahrepps. Þessi félög mynda í dag Framsýn- stéttarfélag sem varð formlega til 1. maí 2008. Félagið telur um 2200 félagsmenn og er eitt öflugasta stéttarfélag landsins. Það er einnig áhugavert að á sama tíma og verulegur samdráttur hefur orðið í atvinnulífinu á félagssvæðinu hefur félagið aldrei verið fjölmennara en um þessar mundir. Þar kemur til að verkafólk utan félagssvæðisins sækist eftir inngöngu í félagið.
Saga verkalýðsbaráttu á Húsavík og í Þingeyjarsýslum er um margt mjög merkileg. Allt frá fyrstu tíð höfðu Verkamannafélagið og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaupgjaldsmálum félagsmanna. En það var líka jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, hagkvæma verslun og samhjálparstarf af ýmsu tagi. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna. Næg atvinna, öflugt mannlíf og viðgangur héraðsins hefur alla tíð verið til umræðu á fundum félaganna. Með tímanum rótfestist sú áhersla í starfi þeirra og allar götur síðan hafa þau, og síðar Framsýn- stéttarfélag haft mikil áhrif á alla umræðu um atvinnu- og byggðamál. Dæmi eru um að stéttarfélögin hafi jafnvel verið leiðandi afl er varðar atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Það er stundum sagt að það fari ekki saman að vera í forystu stéttarfélaga og skipta sér að stjórnmálum. Vissulega er skiptar skoðanir hvað þetta varðar. En þegar saga verkalýðsbaráttu er skoðuð hér á Húsavík má sjá að sterk tengsl hafa alla tíð verið milli setu manna í stjórnum verkalýðsfélaga og í sveitarstjórnum. Ég ætla ekki að fullyrða um það, en þau eru ekki mörg árinn frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur, að ekki hafi setið stjórnarmaður/menn úr stjórnum stéttarfélaganna í hreppsnefnd þess tíma til bæjarstjórnar Norðurþings í dag. Mín skoðun er sú að þetta hafi ekki gert neitt annað en að styrkja stöðu hins vinnandi manns og efla tengsl milli stéttarfélaga og sveitarstjórna. Menn eru jú í verkalýðsmálum til að hafa áhrif, sama má segja um þá sem taka þátt í pólitísku starfi. Markmið beggja er að skapa hagsæld í samfélaginu.
Á síðari áratugum hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf stéttarfélaganna orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Hreyfing verkafólks í Þingeyjarsýslum hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Starfsemi Framsýnar hefur vaxið jafnt og þétt og starfsemi þess orðið margþættari. Sem fyrr ber það hæst í starfi félagsins sem það tók í arf frá forverum sínum; áhersluna á vöxt og viðgang atvinnulífs og samhjálp sem nú er rekin í mynd lífeyrisjóða, starfsendurhæfingarsjóða og styrktarsjóða. Þráðurinn til upphafsins hefur ekki slitnað. Velferð verkalýðsstéttarinnar og félagssvæðisins alls er enn þann dag í dag það markmið sem félagið setur í öndvegi.
Ég skal fúslega viðurkenna, að það er stoltur formaður sem mælir þessi orð og lítur yfir farinn veg sem var brúaður af fátækum verkamönnum til þess tíma sem við fögnum um þessar mundir. Þeir sáu leiðina til framfara og betra lífs með því að stofna með sér verkalýðsfélag um sín hagsmuna- og velferðarmál. Þeir vildu standa jafnfætis öðrum og láta gott af sér leiða. Það er ekki síst þeim að þakka að við búum við þau réttindi og félagslega umgjörð sem við höfum í dag. Þeir mörkuðu leiðina. Einnig er rétt að hafa í huga að þeir þurftu að færa miklar fórnir til að ná settu marki. Það er ekki þannig, eins og sumir vilja halda, að bætt réttarstaða verkafólks hafi komið af sjálfum sér. Nú er það okkar að standa vörð um hagsmunamál félagsmanna og samfélagsins líkt og forfeður okkar gerðu svo vel.
Í dag erum við með öflugt stéttarfélag sem er án efa sameiningartákn verkafólks í Þingeyjarsýslum.
Félag sem er eftirsóknarvert að vera í og er jafnframt umhugað um velferð félagsmanna sinna.
Félag sem hefur alla burði vegna þekkingar og reynslu stjórnar og starfsfólks, til að standa eitt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og aðra atvinnurekendur eins og félagið er að gera um þessar mundir.
Félag sem hefur burði til þess að færa félagsmönnum 22,5 milljónir í afmælisgjöf og getið er um í sérstöku bréfi sem félagsmenn hafa fengið í hendur vegna 100 ára afmælisins.
Félag sem nýtur virðingar á landsvísu og reyndar langt út fyrir landsteinana. Það sést best á því að um sjötíu erlendir verkalýðsforingjar komu í heimsókn til Húsavíkur á síðasta ári til að kynna sér starfsemi félagsins.
Það eru ákveðin lífsgæði fólgin í því að vera í öflugu stéttarfélagi eins og Framsýn. Höldum félaginu í þeim farvegi áfram, okkur og samfélaginu til hagsbóta.
Ágætu félagar!
Vissulega er það þannig að við lifum í dag á mjög sérstökum tímum, tímum uppgjörs við fortíðina þegar ungir kaupsýslumenn seldu sálu sína fyrir græðgi og skuldsettu þar með þjóðina upp í rjáfur. Landsmenn sitja nú uppi með stóran víxil, sem þeir skrifuðu aldrei undir. Samt sem áður er þeim ætlað að greiða fyrir veisluhöldin hjá útrásargenginu með ofur launin og alla bónusana. Þeir telja það sanngjarnt um leið og þeir firra sig allri ábyrgð á því hvernig fór. Þetta eru mennirnir sem töldu sig vera þyngdarinnar virði í gulli.
Þrátt fyrir allt hefur íslensk þjóð alla burði til að vinna sig út úr þeim ógöngum sem við erum í dag. Ísland er ríkt land sem býr yfir miklum náttúruauðlindum sem munu, ef rétt verður á haldið, hjálpa okkur að komast á þann stall sem við viljum vera á og teljum þjóð okkar fyrir bestu. En við verðum að læra af reynslunni. Við verðum að læra að hlusta í stað þess að loka endalaust eyrunum þegar glymur í neyðarbjöllum.
Hvað á ég við? Í svartri skýrslu Danske Bank árið 2006 varaði Lars Christensen forstöðumaður greiningadeildar bankans við ofhitnun í íslenska bankakerfinu, of mikilli skuldsetningu íslenskra heimila og hárri verðbólgu. Það var hart brugðist við þessum aðvörunarorðum á Íslandi. Stjórnmálamenn komu brosandi fram í fjölmiðlum og sögðu slíka úrtölumenn þurfa á endurmenntun að halda. Greiningadeildir bankanna gerðu einnig lítið úr ábendingum Danske bank og sögðu þær hrakspár og morandi í rangfærslum. Virtur hagfræðiprófessor sem síðar varð ráðherra, sagði Danina eitthvað hafa verið að flýta sér og dregið helst til stórkarlalegar ályktanir. Seðlabankastjórinn lét ekki sitt eftir liggja og tók heilshugar undir með þeim sem gagnrýndu skilaboð Danske bank.
Raunar sagði Christensen þetta um stjórn Seðlabankans fyrir hrun.
„Mamma sagði alltaf við mig: „Ekki eyða meiri peningum en þú átt.“ Þetta er mömmuhagfræðin segir Lars. Ef mamma hefði verið seðlabankastjóri á Íslandi 2006 hefði enginn kreppa orðið á Íslandi, það get ég sagt ykkur.“ Tilvitnun lýkur.
Ég er algjörlega sammála þessari nálgun Christensen því ég tel að hagfræði móður minnar hafi sömuleiðis verið miklu betri en allra þeirra sérfræðinga sem gáfu sig út fyrir að vita allt og rúmlega það um arðbærar fjárfestingar og ávöxtun fyrir hrunið mikla. Menn sem um þessar mundir eru til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara fyrir vafasama viðskiptahætti. Það var hins vegar aldrei talin sérstök ástæða til að rannsaka fjármál mömmu, þar sem mamma eyddi aldrei meiru en hún þénaði sem ræstingarkona í bakaríinu á Húsavík. Blessuð sé minning hennar.
Ég þarf ekki að segja ykkur hverjir höfðu að endingu rétt fyrir sér, Danske bank eða svokallaðir sérfræðingar á sviði fjármála á Íslandi. Ég þarf heldur ekki að segja ykkur, hverjir þurfa á endurmenntun að halda. Það segir sig sjálft.
Ég virði skoðanir greiningadeildar Danske bank. Í dag telja þeir að efnahagsbatinn sé hafinn á Íslandi, burtséð frá Icesave. Framundan séu betri tímar er varðar stöðu efnahagsmála um leið og hvatt er til þess að Íslendingar hætti að dvelja í fortíðinni og horfi þess í stað fram á veginn. Hættið að rífast innbyrðis, horfið fram á veginn og verið glöð eru skilaboð Lars Christensen til okkar á Íslandi.
Ég get ekki verið meira sammála. Horfum fram á veginn og hvetjum hvort annað til góðra verka.
Félagar!
Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef aldrei á mínum langa ferli sem trúnaðarmaður eða forsvarsmaður í stéttarfélagi tekið þátt í eins miklum skrípaleik og verið hefur undanfarið í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins þar sem LÍÚ er í brúnni meðan fulltrúar annarra aðildarfélaga SA moka kolum í ofninn svo áróðursvél LÍÚ gangi taktfast gegn öllum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Að sjálfsögðu á að ríkja sátt um okkar mikilvægustu atvinnugrein. Stjórnvöld, LÍÚ og önnur samtök sem hagsmuna hafa að gæta ber að leita allra leiða til að leiða málið til lykta við sitt samningaborð í stað þess að vísa því inn á samningaborð launþega í landinu og koma þannig í veg fyrir að hægt sé að ganga frá kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum.
Umræða um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa ekkert með almennar kjaraviðræður á Íslandi að gera. Þá ber að hafa í huga að fiskurinn í sjónum er jú sameign þjóðarinnar en ekki eign fárra útvaldra aðila. Það verða stjórnvöld að tryggja í endurskoðuðum lögum um fiskveiðar sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi.
Því miður hafa Samtök atvinnulífsins haft verkalýðsfélögin í landinu að ginningarfíflum í næstum hálft ár þar sem grímulaus hagsmunagæsla fyrir LÍÚ vegur þyngra en hagsmunir almenns launafólks. Ég velti því upp líkt og Pétur Blöndal alþingismaður hvort það geti verið að SA ætli að bjóða fram við næstu Alþingiskosningar. Þar sem samtökin hafa aldrei verið eins pólitísk í sínum málflutningi eins og um þessar mundir. Það er óþolandi með öllu að LÍÚ hafi komist upp með að hafa kverkatak á kjaraviðræðunum og komið þannig í veg fyrir að um 100 þúsund launþegar í landinu fái launahækkanir sem þeir hafa beðið eftir síðan kjarasamningar voru lausir fyrir fimm mánuðum. Þetta er gíslataka að verstu sort. Verkafólk á Íslandi getur ekki lengur unað við makalausa framkomu SA og LÍÚ. Ég hvet verkafólk til að brjóta gíslatökuna á bak aftur. Látum sverfa til stáls í krafti samstöðunnar sem á tæplega hundrað árum hefur fært vinnandi fólki á Íslandi ófáa sigrana.
En er það ekki nokkuð sérstakt að verkalýðshreyfingin sem hefur gert allt til að tryggja stöðugleika í þjóðfélaginu með hógværum kröfum til að forðast frekari skipsbrot í íslensku efnahagslífi skuli telja sig knúna til að hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum? Það var ekki á stefnuskrá hennar í upphafi kjaraviðræðna. Verkfallsvopnið er öflugt og ber aðeins að nota í brýnni neyð. Nú er sú stund runnin upp að verkalýðshreyfingin sér ekki annan kost en að beita verkfallsvopninu vegna viljaleysis Samtaka atvinnulífsins að ganga frá kjarasamningum.
Við í verkalýðshreyfingunni viljum forðast verkföll eins og kostur er en við sættum okkur ekki við ofbeldi og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í yfirstandandi samningagerð.
Ég vil því nota tækifærið og skora á önnur félög atvinnurekenda innan Samtaka atvinnulífsins að stíga fram og mótmæla harðlega að eitt af félögunum átta, innan SA, LÍÚ, komist upp með að halda þeim í gíslingu auk launþega í landinu. Látið ekki hagsmuni LÍÚ verða þess valdandi að ykkar atvinnurekstur verði settur í verulegt uppnám með verkföllum. Látið í ykkur heyra og tryggið þannig rekstrargrundvöll ykkar fyrirtækja. Hafið það jafnframt í huga, að það var nánast búið að ganga frá kjarasamningi við SA þannig að ágreiningur um kaup og kjör var útaf borðinu. Samtök atvinnulífsins neituðu hins vegar að skrifa undir samninginn nema stjórnvöld gengu áður að öllum kröfum LÍÚ gagnvart breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Komi til átaka á vinnumarkaði liggur ábyrgðin því fyrst og fremst hjá aðildarfélögum Samtaka atvinnulífsins sem rekja má til jójó stefnu þeirra í samningaviðræðunum. Það er ekki við verkalýðshreyfinguna að sakast.
Ég vil hvetja forseta Alþýðusambands Íslands til að boða til formannafundar þegar í stað þar sem aðgerðir landssambanda og verkalýðsfélaga innan sambandsins verði samræmdar þannig að þær skili tilætluðum árangri í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks í landinu.
Ágæta samkoma!
Það er töff að vera Þingeyingur, héðan kemur gáfasta fólkið samkvæmt spurningaþættinum Útsvari sem er opinber mælikvarði á gáfnafar í landinu enda kostaður af opinberu fé. Á endasprettinum urðu nágrannar okkar úr Eyjafirði að lúta í gras fyrir fulltrúum Norðurþings.
Þá settist hér að fyrsti landnámsmaðurinn Garðar Svavarsson ásamt fylgdarliði sem allt hefði verið í Framsýn hefði félagið verið til á þeim tíma og hér er að sjálfsögðu besta loftið eins og þekkt er.
Hafi einhvern tímann verið vafi á því að við Þingeyingar hefðum ekki efni á því að vera svolítið góðir með okkur, hefur það nú verið afsannað með sigri okkar í Útsvari. Höldum montinu á lofti og njótum þess að vera til. Lífið er, þrátt fyrir allt, til þess fallið að hafa gaman að því.
Að lokum vil ég óska Þingeyingum og reyndar landsmönnum öllum til hamingju með 100 ára afmæli stéttarbaráttu í Þingeyjarsýslum um leið og set hátíðarhöldin hér í dag á hátíðar- og baráttudegi verkafólks um heim allan.
Mikill fjöldi fólks er á afmælishátíð Framsýnar á Húsavík.