Formannafundur LÍV var haldinn í Reykjavík sl. mánudaginn. Fundinn sóttu fh. Framsýnar Jóna Matthíasdóttir og Jónína Hermannsdóttir.
Fundarmenn fengu kynningu á nýútkominni launakönnun VR en þar kom m.a. fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna er svipaður og í upphafi árs 2005. Kynbundinn launamunur innan VR mælist nú um 8,4% en var 9,5% á síðasta ári. Nánar má sjá upplýsingar á vefsíðu VR http://vr.is/kannanir/launakonnun-2014/
Umræða og yfirferð á kröfugerð LÍV og VR var tekin fyrir og þá fór Halldór Grönvold yfir reglur og notkun á vinnustaðaskírteini og hvernig upplýsingar skili sér í skráningarkerfi ASÍ. Nokkur umræða var um svarta atvinnustarfsemi og hvernig staðið er að gerð ráðningarsamninga en víða er pottur brotinn í þeim efnum. Fundinum lauk með erindi og umræðu við Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ en fram kom í máli fundarmanna að urgur og reiði er í mörgum félagsmönnum.
Ályktun formannafundar LÍV
Formannafundur Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, haldinn 22. september 2014, mótmælir harðlega þeim skerðingum sem fram koma í fjárlagafrumvarpi 2015. Þrátt fyrir að forystumenn ríkisstjórnarinnar haldi því fram að fjárlagafrumvarpið bæti hag heimila að meðaltali, þá er ljóst að það gildir ekki um tekjulægri hópa samfélagsins.
Formannafundur LÍV gerir mjög alvarlegar athugasemdir við:
Hækkun lægra þreps virðisaukaskatts úr 7% í 12%
Skerðingu réttar til atvinnuleysisbóta
Að ekki verði staðið við gefin fyrirheit um framlag til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs
Skerðingu framlaga til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða
Skert framlög til mennta-, heilbrigðis- og vinnumarkaðsmála
Það er ljóst að ofangreind atriði auðvelda ekki þá kjarasamningsgerð sem framundan er og stefnir að óbreyttu í hörð átök á vinnumarkaði. Formannafundur LÍV skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða framkomið fjárlagafrumvarp.Jóna formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar tók þátt í formannafundi LÍV ásamt varaformanni deildarinnar Jónínu Hermanns.