Alþýðusamband Íslands f.h Starfsgreinasambands Íslands vegna Framsýnar stéttarfélags hefur höfðað mál gegn Samtökum atvinnulífsins vegna fiskvinnslufyrirtækisins Vísis hf.
Málið var þingfest fyrir Félagsdómi 18. júlí 2014. Stefndi hefur rétt til að skila inn greinagerð sinni um málið til 9. september n.k. Reiknað er með að aðalmeðferð málsins fari fram í haust, enda er Félagsdómi ætlað að ráða fram úr málum með skjótum hætti.
Krafan er að dæmt verði að rekstrarstöðvun stefnda, sem tilkynnt var stefnanda þann 1. apríl 2014 og kom til framkvæmda þann 1. maí 2014 og stendur enn, hafi verið brot á ákvæði 18.4.8.2 í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
Forsagan er að Vísir hf. sem rekið hefur öfluga fiskvinnslu á Húsavík til fjölda ára boðaði lokun á starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík með mánaðar fyrirvara í vor þar sem til stæði að flytja starfsemina til Grindavíkur. Ávörðunin var tilkynnt formlega á fundi með starfsmönnum og fundum með formanni Framsýnar og sveitarstjóra Norðurþings. Ákvörðun fyrirtækisins kom starfsmönnum verulega á óvart og reyndar samfélaginu öllu á Húsavík. Reksturinn hafði verið í góðu lagi undanfarin ár og nýlega var búið að endurnýja vinnslulínurnar í starfstöðinni auk þess sem fyrirtækið hafði sótt um að fá að byggja við húsnæði þess á Húsavík.
Starfsmönnum var boðið að flytja með fyrirtækinu til Grindavíkur sem reiknaði með að hefja þar starfsemi 1. september, það er fjórum mánuðum eftir að lokað var á Húsavík. Starfsmönnum var bent á að skrá sig atvinnulausa í millitíðinni. Að sjálfsögðu var starfsmönnum verulega brugðið og leituðu þeir til Framsýnar varðandi sína stöðu og réttindi en tæplega 60 starfsmenn hafa starfað hjá fyrirtækinu á Húsavík. Framsýn brást við með þeim hætti að krefja Vísi hf. um að virða kjarasamninga og lög og greiða starfsmönnum laun.
Félagið taldi skilyrðislaust- að fyrirtækið ætti að greiða starfsmönnum kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest sem fyrirtækið hafnaði. Framsýn fundaði með Vinnumálastofnun og gerði stofnunninni grein fyrir skoðunum félagsins. Í kjölfarið fundaði Vinnumálastofnun með forsvarsmönnum Vísis þar sem niðurstaðan varð sú að fyrirtækið tók þá starfsmenn sem höfnuðu því að fylgja fyrirtækinu til Grindavíkur aftur inn á launaskrá með það að markmiði að greiða þeim uppsagnarfrestinn.
Vísir hefur hins vegar ekki fallist á þá kröfu Framsýnar að greiða þeim 40 starfsmönnum sem ætla að fylgja fyrirtækinu til Grindavíkur laun meðan unnið er að flutningi frá Húsavík og uppsetningu á tækjum og tólum í Grindavík. Fyrirtækið ber við hráefniskorti og því hafi það heimild til afskrá starfsmenn af launaskrá meðan það ástand varir. Þess í stað ætla þeir Atvinnuleysistryggingasjóði að greiða starfsmönnum atvinnuleysisbætur. Framsýn hefur mótmælt þessum vinnubrögðum harðlega þar sem þau standist ekki ákvæði kjarasamninga þar sem um tilbúinn hráefnisskort sé um að ræða meðan unnið er að því að koma nýrri starfstöð í Grindavík í gagnið.
Þegar fyrirtækið lokaði starfsstöðinni á Húsavík hafði fyrirtækið yfir að ráða um 2000 þúsund þorskígildistonnum skv. upplýsingum á vef Fiskistofu. Það kallast ekki hráefnisskortur. Þá segir í reglugerð um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja að þær eigi ekki við í þeim tilvikum þar sem um er að ræða uppsetningu á nýjum tækjabúnaði fyrirtækis eða vegna breytinga á vinnsluhúsnæði fyrirtækis.
Þar sem Framsýn telur málið mjög alvarlegt og það vegi að starfsöryggi fiskvinnslufólks taldi félagið eðlilegt að leita eftir aðkomu Stafsgreinasambands Íslands að málinu þar sem það varðar almenn réttindi og stöðu fiskvinnslufólks á Íslandi. Starfsgreinasambandið tók erindinu vel og mun fylgja því eftir í Félagsdómi með lögfræðingum sambandsins.
Dæmi eru um að starfsmenn Vísis hf. eigi takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum þar sem þeir hafa starfað stutt á Íslandi en fyrirtækið hefur ekki greitt þeim laun í sumar meðan þeir bíða eftir því að hefja störf í Grindavík eftir að vinnslu fyrirtækisins á Húsavík var lokað í vor. Framsýn telur þessi vinnubrögð ólögleg.
Starfsmenn Vísis fjölmenntu á fund sem Framsýn boðaði til með þeim til að fara yfir stöðuna eftir að Vísir hf. ákvað að loka starfsstöð fyrirtækisins á Húsavík.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson,- segir afar óeðlilegt að Vísir hf. komist upp með greiða ekki starfsmönnum laun meðan þeir bíða eftir að ný starfstöð í Grindavík verði tilbúin. Félagsdómur mun taka málið fyrir í haust.