Það er löngu ljóst að kjarasamningarnir sem aðildarfélög Alþýðusambands Íslands gengu frá í lok desember við Samtök atvinnulífsins upp á 2,8% eru löngu brostnir. Ríkistjórnin kom að samningunum með yfirlýsingu um ákveðnar breytingar, ekki síst á verðlagi og sköttum til lækkunar í takt við umsamdar launahækkanir til að halda niðri verðbólgu.
Ríkistjórnin stóð ekki betur en svo við yfirlýsinguna að hún var afgreidd frá Alþingi á lokadögum þingsins í vor. Þá hafa þeir hópar sem samið hafa um kaup og kjör síðustu vikurnar fengið verulega meiri launahækkanir en ábyrga verkafólkið sem samdi aðeins um 2,8% launahækkun til að halda niðri verðbólgu eins og forystufólk verkafólks trúði því fyrir.
Þá er jafnframt full ástæða til að gagnrýna ýmislegt sem fram kemur í yfirlýsingu ríkistjórnarinnar. Þar eru skattar í áfengi og tóbak lækkaðir á sama tíma og aðgengi að heilbrigðisþjónustu er hækkað um 5%. Þetta er undarleg forgangsröðun svo ekki sé meira sagt. Um þessar mundir hafa t.d. félagskonur í Framsýn, sem taka þátt í reglulegri krabbameinsleit, verið að koma með kvittanir fyrir greiðslu fyrir skoðunina á Skrifstofu stéttarfélaganna en Framsýn niðurgreiðir kostnaðinn við krabbameinsleitina fyrir félagskonur. Þar kemur fram að skoðunin hefur hækkað um 0,5%. Sami aðili getur svo komið við í Ríkinu á heimleiðinni og verslað sér vín á lækkuðu verði. Lækkunin nemur um 0,5 prósentum á heildsöluverði á bjór og léttvíni, en um 0,8 prósentum á sterku áfengi. Er þetta ekki svolítið undarleg forgangsröðun?
Vín og bjór lækkar í verði um allt að 0,8%. Á sama tíma hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir. Spurt er, hvað gengur mönnum til með slíkri forgangsröðun?