Fyrirmyndardagurinn er dagur þar sem fyrirtæki bjóða atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að fylgja starfsmanni eftir í sínu fyrirtæki eða stofnun í einn dag eða hluta úr degi. Fyrirmyndardagurinn er haldinn í fyrsta sinn á Íslandi í dag, 4.apríl. Hugmyndin er að um árlegan viðburð verði að ræða. Umfang dagsins er frekar lítið í ár þar sem þetta er í fyrsta sinn sem hann er haldinn en markmiðið er að auka umfang hans frá ári til árs.
Þátttakendur dagsins í ár eru atvinnuleitendur með skerta starfsgetu sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun og fyrirtæki sem eru nú þegar í samvinnu við Atvinnu með stuðningi/Vinnumálastofnun auk fyrirtækja sem eru aðilar innan Festu-samfélagsábyrgð fyrirtækja. Auk nokkurra annarra fyrirtækja.
Í ár verður að mestu horft til höfuðborgarsvæðisins og suðurnesja eða þar sem Vinnumálastofnun er með starfsemi Atvinnu með stuðningi. Stefnt er að því að Fyrirmyndardagurinn verði haldinn á landsvísu til þess að allir sem áhuga hafa á að taka þátt fái tækifæri til þess, bæði atvinnuleitendur með skerta starfsgetu og atvinnurekendur.
Ávinningur dagsins er sá að atvinnuleitendur fá tækifæri til að kynna sér margvísleg störf innan ólíkra fyrirtækja og kynna sig sem atvinnuleitendur. Þátttökufyrirtækin fá tækifæri til þess að kynna störf innan sinna fyrirtækja fyrir atvinnuleitendum.
Á Írlandi hafa samtök Atvinnu með stuðningi innleitt Job Shadow daginn sem er fyrirmynd að Fyrirmyndardeginum. Atvinnuleitendur hafa fengið tækifæri til að kynna sér ýmiskonar starfsvettvang auk þess sem forsvarsmenn fyrirtækja hafa fengið tækifæri á að kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu og hefur verkefnið opnað möguleika fatlaðs fólks til fjölbreyttari atvinnuþátttöku.
Viðbrögð fyrirtækja og stofnana hafa verið frábær í undirbúningsferlinu og ríkir mikil tilhlökkun til Fyrirmyndardagsins hjá Vinnumálastofnun.
Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík tekur að sjálfsögðu þátt í Fyrirmyndardeginum. Góður gestur, Dagur Már Jóhannsson verður starfsmönnum til stuðnings í dag en hann er mikill áhugamaður um starfsemi stéttarfélaga. Hér er hann að afgreiða Svein Aðalsteinsson.