Fjölmargar heimsóknir eru á heimasíða stéttarfélaganna á degi hverjum, enda síðan mjög virk og nánast daglega hægt að nálgast þar nýjar fréttir úr starfsemi stéttarfélaganna. Samkvæmt Google analytics eru daglegar flettingar á síðunni yfirleitt á bilinu 200-500. Þó er einn dagur á þessu ári sem sker sig úr en þá margfaldaðist flettingafjöldinn og urðu flettingarnar alls 1372. Þessi sprenging á sér þó sínar eðlilegu skýringar en þennan merkilega dag birtust nefnilega fjölmargar stórfréttir á síðunni sem vitnað var í víða í netheimum. Þær voru þó misáreiðanlegar, eins og aðrar fréttir fjölmiðla þennan dag, þar sem þær birtust á heimasíðunni föstudaginn 1. apríl. Meðal frétta á heimasíðunni á metdaginn bar sennilega hæst frétt um að um nóttina hefðu tekist kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins sem tryggðu kr. 200.000,- lágmarkslaun. Í annarri frétt var vísað í framsýni spádómssvínsins Boggu sem spáði réttilega sigri Norðurþings í spurningaþættinum Útsvari. Þá birtust einnig fréttir af ánægju löggæslumanna í Þingeyjarsýslum með stuðning Framsýnar við ályktun Lögreglufélags Þingeyinga og síðast en ekki síst birtist stórfrétt um 22,5 milljón króna afmælisglaðning til félagsmanna í tilefni af 100 ára afmæli Framsýnar. Þess ber að geta að aðeins fréttin af kjarasamningagerðinni var gerð í tilefni dagsins. Allar hinar fréttirnar voru sannleikanum samkvæmt, þótt ótrúlegt megi virðast.