Vel sóttur félagsfundur um lífeyrismál

Framsýn stóð fyrir félagsfundi um lífeyrismál í gær í samstarfi við Þingiðn og Lsj. Stapa. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, opnaði fundinn og fór nokkrum orðum yfir mikilvægi þess að félagsmenn væru vel inn í sínum málum, ekki síst hvað varðaði lífeyrismál og hvenær tímabært væri að hefja töku lífeyris. Töluvert væri leitað eftir ráðgjöf á Skrifstofu stéttarfélaganna hvað varðaði töku lífeyris. Þess vegna hefðu stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn staðið reglulega fyrir kynningarfundum um lífeyrismál í samstarfi við starfsmenn Lsj. Stapa. Samstarfið hefði verið með miklum ágætum.

Tveir góðir gestir frá Lsj. Stapa væru komnir til að fræða fundarmenn um tilgang og markmið lífeyrissjóða auk þess að svara spurningum fundarmanna um lífeyristöku og form sparnaðar s.s. séreignasparnaðar. Þetta væru þær Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs og Kristín Hilmarsdóttir sem sæi um kynningar og vefmál hjá sjóðnum. Hann bauð þær sérstaklega velkomnar til fundarins. Jóna Finndís þakkaði fyrir hlý orð í garð þeirra Kristínar. Því næst flutti hún mjög svo fróðlegt erindi um starfsemi lífeyrissjóða, fór yfir samtryggingar- og örorkuhlutann auk þess að fjalla um séreignina og tilgreindu séreignina. Jóna Finndís kom víða við í sínu erindi auk þess að svara fundarmönnum sem lögðu fram fjölmargar spurningar á fundinum sem jafnframt lýstu yfir ánægju sinni með fundinn sem að þeirra mati hefði verið mjög upplýsandi. Í lok fundar, þakkaði Aðalsteinn Árni frummælendum og fundarmönnum fyrir góðan fund um leið og hann færði þeim Jónu og Kristínu konfekt frá félögunum. Þær sögðu alltaf ánægjulegt að koma til Húsavíkur á fundi hjá stéttarfélögunum.  Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru á fundinum:

Deila á