Björn Gíslason sem nýlega var ráðinn í starf verkefnastjóra atvinnuuppbyggingar á Bakka við Húsavík heilsaði upp á formann Framsýnar í morgun. Björn tók við starfinu í janúar. Hlutverk hans verður að ýta úr vör nýjum verkefnum á Bakka við Húsavík, styðja fjárfesta með greinargóðum upplýsingum og samhæfa vinnu lykilaðila að stórum fjárfestingum á svæðinu.
Björn var framkvæmdastjóri Stefnu frá árinu 2021 og hefur stýrt því fyrirtæki í gegnum miklar breytingar. Áður starfaði Björn m.a. sem fjárfestingarstjóri hjá KEA þar sem hann kom að mati á fjárfestingarkostum og mati á tækifærum og viðskiptahugmyndum sem og sem sjóðsstjóri fjárfestingarsjóðsins Tækifæris hjá Íslenskum verðbréfum til margra ára. Björn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og tekið þátt í stefnumótun og rekstri fyrirtækja og mati nýsköpunarhugmynda. Einnig hefur Björn mikla reynslu sem verkefnastjóri þar á meðal hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Á fundinum í morgun kom fram mikill vilji aðila til að eiga gott samstarf um atvinnuuppbyggingu á Bakka enda stéttarfélögunum umhugað um að efla atvinnulífið, ekki síst þar sem staða PCC er ekki góð um þessar mundir og þá er ákveðin óvissa varðandi ferðaþjónustuna vegna aukinnar skattlagningar á atvinnugreinina sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af. Þrátt fyrir áföll í atvinnulífinu er mikilvægt að menn horfi fram á veginn með það að markmiði að efla atvinnulífið í sveitarfélaginu Norðurþingi.