Rólegt yfir aðalfundi verslunarmanna

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar fór fram í gærkvöldi. Fundurinn fór vel fram og urðu almennar umræður um starfsemi deildarinnar og önnur mál er tengjast verslun- og þjónustu á félagssvæðinu. Áhugi er fyrir því að fá næsta þing LÍV til Húsavíkur en það verður haldið árið 2027. Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn deildarinnar fyrir starfsárið 2026: Aðalsteinn J. Halldórsson formaður, Elva Héðinsdóttir varaformaður, Harpa Stefánsdóttir ritari og Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir sem meðstjórnendur. Formaður deildarinnar, Aðalsteinn J, gerði grein fyrir starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári þar sem þetta kom fram:

Ágætu félagsmenn! Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fundarins. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2025, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma. 

Fjöldi félagsmanna:

Varðandi fjölda félagsmanna þá greiddu um 369 einstaklingar til deildarinnar á árinu 2025. Um er að ræða smá fækkun milli ára þar sem 444 greiddu til deildarinnar árið 2024.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar alls 406.

Kjaramál:

Eins og kunnugt er skrifuðu aðilar vinnumarkaðarins undir nýjan kjarasamning þann 13. mars 2024 með gildistíma til loka janúar árið 2028. Þess vegna fór afar lítið fyrir kjaraviðræðum á árinu 2025 enda samningar ekki lausir. Markmið samningsins frá árinu 2024 er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þá er markmiðið jafnframt að auka kaupmátt launafólks, skapa fyrirsjáanleika í efnahagslífinu, draga úr verðbólguvæntingum og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Vonandi gengur þetta eftir út samningstímann en því miður hefur atvinnuástandið farið versnandi undanfarna mánuði á landsvísu, ekki síst á félagssvæði Framsýnar. Þar kemur til að PCC lagði niður framleiðslu á síðasta ári sem er mikilvægasti atvinnurekandinn á Húsavík með um 150 starfsmenn í vinnu auk afleiddra starfa. Um þessar mundir starfa um 20 manns hjá fyrirtækinu við viðhald og eftirlit. Óvíst er hvort eða hvenær starfsemi PCC fer að stað aftur. Þá eru blikur  lofti í ferðaþjónustunni, ekki síst eftir að stjórnvöld gerðu ýmsar breytingar á gjaldtöku til hækkunar er varðar komur ferðamanna til landsins, hvað það  varðar hafa heimamenn miklar áhyggjur af því að komum skemmtiferðaskipa til Húsavíkur muni fækka verulega á árinu. Ferðaþjónustuaðilar sem og Norðurþing verði af töluverðum tekjum. Jafnframt liggur fyrir að verslun og þjónusta á undir högg að sækja í hinum dreifðu byggðum landsins.  Það jákvæða er að fjölmörg fyrirtæki eru með til skoðunar að hefja atvinnustarfsemi á Húsavík og í næsta nágrenni. Áhugasamir aðilar hafa átt í viðræðum við Norðurþing og Framsýn um hugmyndir þeirra um atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu Norðurþingi. Vonandi ganga þessar áætlanir eftir enda búum við yfir mikilli orku og skipulögðu svæði undir atvinnustarfsemi.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð starfsárið 2025: Aðalsteinn J. Halldórsson formaður, Elva Héðinsdóttir varaformaður, Harpa Stefánsdóttir ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Varaformaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Deildin hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins auk þess sem formaður deildarinnar starfar á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Þing og ráðstefnur:

Fulltrúar deildarinnar hafa sótt fundi á vegum LÍV, þing og ráðstefnur sem haldnar hafa verið frá síðasta aðalfundi sem varða hagsmuni verslunar- og skrifstofufólks. 34. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var haldið í lok október 2025. Þingið sem haldið var á Grand Hótel í Reykjavík fór vel fram. Aðalsteinn J. Halldórsson, formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar sat fundinn sem fulltrúi félagsins. Hann náði kjöri sem varamaður í stjórn Landsambandsins. Helstu málefni sem voru til umræðu á þinginu voru niðurskurðarstefna og gervigreind sem ályktað var um. Þá var einnig ályktað um leikskólamál og öryggismál verslunarfólks. Nálgast má ályktanirnar inn á heimasíðu Framsýnar; framsyn.is

Fræðslumál:

Félagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum kjarasamningsbundnum fræðslusjóði, það er Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þá hafa þeir einnig aðkomu að Fræðslusjóði Framsýnar sem niðurgreiðir einnig nám til félagsmanna, séu þeir í kostnaðarsömu námi og hafi fullnýtt sinn rétt hjá Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Árið 2025 voru veittir 42 námsstyrkir samtals kr. 3.866.426 sem er hækkun milli ára, það er 29 styrkir til kvenna og 13 styrkir til karla. Til samanburðar má geta þess að árið 2024 fengu félagsmenn deildarinnar 48 námsstyrki samtals kr. 2.859.640, það er 36 styrkir til kvenna og 12 styrkir til karla.

Skipulagsmál deildarinnar:

Á síðasta aðalfundi deildarinnar í ársbyrjun 2025 var samþykkt að beina þeim tilmælum til aðalstjórnar Framsýnar að skoðað yrði hvort tilefni væri til þess að breyta formi aðalfunda frá því sem nú er samkvæmt starfsreglum deildarinnar. Það er að formlegir aðalfundir falli niður. Þess í stað yrði gert grein fyrir starfseminni og kosið í stjórn deildarinnar á aðalfundi Framsýnar ár hvert. Til að gera langa sögu stutta þá samþykkti aðalstjórnin að taka málið upp við lögmenn ASÍ með það í huga að verða við tilmælum fundarins. Lögmenn ASÍ lögðust gegn þessum breytingum. Þar sem Framsýn væri aðili að Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna væri eðlilegast að deildin væri sjálfstæð og fjallaði um þau mál er vörðuðu félagsmenn deildarinnar. Í ljósi þessa var fallið frá því að vinna frekar í málinu. Skipulag deildarinnar er því óbreytt.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Þá eru fjórir starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2025, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hátíðarhöldin 1. maí gengu afar vel og þá fara starfsmenn félagsins reglulega í heimsóknir í skóla félagssvæðinu með fræðslu sem og í vinnustaðaheimsóknir. Þá gekk útleiga á orlofshúsum og íbúðum á vegum félagsins vel á árinu 2025. Farið var í sumarferð í Flateyjardal sem var vel sótt og ánægjuleg í alla staði. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma.

Í lokin þakkaði formaður deildarinnar meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem hefði verið með miklum ágætum.

Deila á